Ingvar E. Sigurðsson hlaut í dag verðlaun sem besti leikarinn á Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám Cannes kvikmyndahátíðarinnar, sem fram fer þessa dagana.
[Prix Fondation Louis Roederer de la Révélation / Louis Roederer Foundation Rising Star Award]
— SemaineDeLaCritique (@semainecannes) May 22, 2019
Ingvar E. Sigurðsson pour/for HVÍTUR, HVÍTUR DAGUR (A WHITE, WHITE DAY) de/by Hlynur Pálmason@LouisRoederer_ #SDLC2019 pic.twitter.com/E7ujkjLUtw
Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur, nýjasta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Hlyns Pálmarssonar, var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week og er hún ein af sjö myndunum sem valda voru í keppni á hliðarviðburðinum. Verðlaunin hlýtur Ingvar fyrir aðalhlutverk í myndinni, þar sem hann túlkar lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum.
Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst. Þetta er saga um sorg, hefnd og skilyrðislausa ást. Tökur á myndinni fóru fram á Hornafirði, Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og í Oddskarði.
Myndin var frumsýnd í vikunni og hefur hún hlotið mikið lof. Blaðamaður Screen International, Wendy Mitchell, sagði á samfélagsmiðlum að myndin sé meðal þeirra mest umtöluðu á hátíðinni og þá segir gagnrýnandi Hollywood Reporter að myndin sé „kröftug og frumlega úthugsuð“ og fer einnig fögrum orðum um Ingvar.
Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 6. september.