MacKenzie Bezos hefur heitið því að gefa helming auðæfa sinna til góðgerðarmála. Bezos skildi við eiginmann sinn, Jeff Bezos, forstjóra og stofnanda Amazon, fyrr á árinu og varð fyrir vikið ein ríkasta kona heims.
Með þessu bætist Bezos í hóp milljarðamæringa á borð við Warren Buffett og stofnanda Microsoft, Bill Gates, sem tekið hafa undir loforðið Giving Pledge.
Buffett stofnaði Giving Pledge, en með því er ríkt fólk hvatt til þess að gefa að minnsta kosti helming auðæfa sinna til góðgerðarmála.
Jeff Bezos er ríkasti maður heims, en eftir skilnaðinn heldur MacKenzie eftir 4% hlut í Amazon. Amazon er metið á rúmlega 890 milljarða dollara að markaðsvirði og er 4% hlutur MacKenzie Bezos því ríflega 35 milljarða dollara virði.