Ferðamönnum hefur fjölgað svo um munar í úkraínsku borginni Tsjernóbíl á síðustu vikum að því er fréttastofa Reuters greinir frá. Ferðaskrifstofa sem býður upp á skoðunarferð um draugaborgina greinir frá því að um 40% aukning hefur verið á bókunum í ferðir hjá henni.
Aukningin er rakin til vinsælda þáttaraðarinnar Chernobyl sem bandaríska sjónvarpsstöðin HBO setti í loftið á dögunum. Þáttaröðin fjallar um kjarnorkuslysið sem varð í kjarnorkuverinu í Tsjernóbíl í apríl 1986. Í maí fjölgaði ferðamönnum sem fóru um Tsjernóbíl-svæðið um 30%.
Þættirnir hafa hlotið mikið lof víðast hvar og eru með einkunnina 9,7 af 10 á IMDb sem þykir mjög hátt. Leiðsögumaður sem vinnur á svæðinu segir að ferðamenn séu einstaklega áhugasamir um svæðið og spyrji margra spurninga út frá þáttunum.
Íslenski leikarinn Baltasar Breki Samper fer með hlutverk í tveimur þáttum og samdi Hildur Guðnadóttir tónlistina fyrir þættina.