Þjóðleikhúsið mun fagna 70 ára afmæli sínu á næsta leikári og af því tilefni verður Kardemommubærinn, eitt af eftirlætisleikritum íslenskra barna, settur á svið, að því er fram kemur í tilkynningu frá leikhúsinu og hefst miðasala í haust.
„Verkið er nú sett upp í Þjóðleikhúsinu í sjötta sinn, og er við hæfi að það sé afmælissýning Þjóðleikhússins á 70 ára afmæli þess, enda hefur Þjóðleikhúsið alla tíð lagt sérstaka áherslu á veglegar barnasýningar,“ segir í tilkynningunni.
Örn Árnason mun fara með hlutverk Bastíans bæjarfógeta og verður það í sjöunda sinn sem hann leikur í uppfærslu á verki eftir Egner í Þjóðleikhúsinu. Örn hefur áður leikið alla ræningjana þrjá, Kasper og Jesper og Jónatan og faðir hans, Árni Tryggvason, lék Bastían bæjarfógeta árið 1974. Ágústa Skúladóttir mun leikstýra sýningunni og af öðrum leikurum sem í henni verða eru nefndir Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson og Oddur Júlíusson í hlutverki ræningjanna, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir verður Soffía frænka og Þórhallur Sigurðsson verður Tobías í turninum.
Tónlistarstjóri verður Karl Olgeirsson, leikmynd hannar Högni Sigurþórsson og búninga María Th. Ólafsdóttir. Þýðandi verksins er Hulda Valtýsdóttir og um þýðingu söngtexta sá Kristján frá Djúpalæk.
Í tilkynningu segir að verk norska listamannsins Thorbjørns Egners hafi verið samofin starfi Þjóðleikhússins allt frá þeim tíma er Kardemommubærinn var frumsýndur í leikhúsinu árið 1960. „Skáldskapur Egners rataði beint að hjarta íslenskra barna og Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi hafa verið sett á svið á Stóra sviði Þjóðleikhússins reglulega allar götur síðan, enda verður hver kynslóð að fá að sjá sinn Kardemommubæ!“ segir í tilkynningu. Fjöldi leikara, barna og tónlistarmanna tekur þátt í sýningunni.