Raunveruleikaþáttastjarnan Kim Kardashian tilkynnti gær að hún væri búin að koma á laggirnar akstursþjónustu fyrir fyrrverandi fanga í atvinnuleit. Hún ásamt akstursfyrirtækinu Lyft ætlar að bjóða fyrrverandi föngum upp á akstur í atvinnuviðtöl án endurgjalds.
Kardashian hélt ræðu í Hvíta húsinu í gær og ræddi um fangelsismál. Hún hefur síðustu mánuði heimsótt fjölda fanga og fyrrverandi fanga sem nýlega hafa losnað úr fangelsi. Með akstursþjónustunni vill hún auka líkur á því að fyrrverandi fangar fái aftur vinnu eftir að þeir hafa setið inni. Hún sagði að í samtölum sínum við fyrrverandi fanga hafi málið oft komið upp og þeir sagt að erfitt væri að fá vinnu.
Þá tilkynnti Trump að fyrrverandi fangar myndu eiga rétt á að sækja um félagslegt húsnæði og opinber störf. Hann fór þó ekki nánar út í hvernig staðið verður að því í framtíðinni. Hann tilkynnti einnig um að Fangelsismálastofnun Bandaríkjanna muni markvisst vinna með föngum við að finna handa þeim störf áður en þeir losna úr fangelsi.
Kardashian er ötull stuðningsmaður First Step Act-laganna sem Trump undirritaði í desember síðastliðnum. Lögin miða að því að bæta aðstöðu fanga í Bandaríkjunum og fyrirbyggja að fangar leiðist aftur út í glæpi að fangelsisvist lokinni.
Hún hefur síðustu mánuði, ásamt teymi lögfræðinga, unnið að því að frelsa fólk úr fangelsi sem annaðhvort hefur fengið óréttláta málsmeðferð eða verið dæmt fyrir smáglæpi. Í lok maí hafði hún frelsað 17 fanga úr fangelsi.
Þá heimsótti Kardashian fangann Kevin Cooper sem er á dauðadeild í San Quentin-öryggisfangelsinu í Kaliforníu nú í byrjun sumars. Cooper var dæmdur fyrir fjórfalt morð árið 1983 en Kardashian telur hann vera saklausan.