Sonja Sif Þórólfsdóttir
Leikarinn Bill Cosby situr ekki aðgerðalaus á bak við lás og slá, en hann er orðinn að vinsælum fyrirlesara í fangelsinu sem hann situr í. Samkvæmt heimildum slúðurmiðilsins TMZ hefur Cosby haldið fyrirlestra fyrir samfanga sína reglulega síðustu þrjá mánuði.
Cosby var dæmdur í fangelsi fyrir kynferðisofbeldi og mun sitja inni að lágmarki 3 ár og að hámarki 10 ár.
Umfjöllunarefni fyrirlestranna er föðurhlutverkið og tengir hann augljóslega saman fyrirlestrana og hlutverk sitt í The Cosby Show-þáttunum. Hann hvetur samfanga sína til að vera fyrirmyndir fyrir börn þeirra þegar þeir koma úr fangelsi og taka strax aftur þátt í uppeldi þeirra. Þá gefur Cosby samföngum sínum einnig ráð um hvernig þeir eigi að fá vinnu eftir að þeir losna úr fangelsi og gefur ráð fyrir atvinnuviðtöl.
Fyrirlestrarnir eru vel sóttir af samföngum Cosby og allt að hundrað fangar sækja hvern fyrirlestur. Cosby nýtir kímnigáfu sína í fyrirlestrunum líkt og hann gerði í þáttunum.
Nafn Cosby hefur ávallt verið tengt við hina fullkomnu föðurímynd sem hann sýndi í gamanþáttunum þar sem hann kom fyrir sem fyrirmyndarfjölskyldufaðir, ljúfur og góður með ómþýða rödd sem fékk alla til að hlæja.
Cosby lét feðradaginn þar vestanhafs ekki fram hjá sér fara um helgina og fékk hann tengilið sinn til að birta kveðju á samfélagsmiðlum sínum.
Hey, Hey, Hey...It’s America’s Dad...I know it’s late, but to all of the Dads... It’s an honor to be called a Father, so let’s make today a renewed oath to fulfilling our purpose —strengthening our families and communities.#HappyFathersDay#RenewedOathToOurFamily pic.twitter.com/6EGrF87t6G
— Bill Cosby (@BillCosby) June 17, 2019