Um 5 þúsund fangar munu njóta aðstoðar raunveruleikaþáttastjörnunnar Kim Kardashian þegar þeir losna úr fangelsi á næstu mánuðum. Kardashian hefur beitt sér fyrir að bæta aðstöðu fanga í Bandaríkjunum og kynnti hún á dögunum akstursþjónustu fyrir fyrrverandi fanga.
Með akstursþjónustunni, sem Lyft mun annast, fá fyrrverandi fangar akstur endurgjaldlaust til þess að komast í atvinnuviðtöl. Þeir munu einnig geta nýtt þjónustuna endurgjaldslaust til að sækja alls konar þjónustu hjá hinu opinbera.
Kardashian hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði að því að betrumbæta fangelsismál í Bandaríkjunum og frelsað hátt í 20 fanga. Hún hefur heimsótt fanga í fangelsi og menn sem nýlega hafa losnað úr fangelsum. Hún sagði í ræðu sinni í Hvíta húsinu fyrir helgi að margir hafi greint frá erfiðleikum við að komast í atvinnuviðtöl.