Talið er að um 10.000 manns hafi verið á Secret Solstice í gærkvöldi og fór frekar vel fram að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um það bil fimmtán fíkniefnamál komu upp í tengslum við hátíðina í gær en þau voru 18 daginn áður.
Talsverður fjöldi hélt áfram að skemmta sér og endaði í miðbæ Reykjavíkur en það fór einnig vel fram. Mun minna var um um slagsmál og leiðindi en aðfararnótt laugardags.
Fjórir ökumenn voru handteknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og aðrir sex voru handteknir fyrir að aka undir áhrifum áfengis.
Talsverður erill var hjá lögreglunni á Akureyri í nótt. Eitthvað var um minniháttar pústra en enginn gistir fangaklefa þar á bæ. Eins komu upp einhver fíkniefnamál en öll minniháttar, að sögn varðstjóra í lögreglunni á Norðurlandi eystra.