„Læt ekkert stoppa mig“

Patrekur Andrés Axelsson er einn af þeim sem stefnir á …
Patrekur Andrés Axelsson er einn af þeim sem stefnir á Ólympíumót fatlaðra í Tókyó árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Patrekur Andrés Axelsson er án efa einn af áhugaverðustu íþróttamönnum landsins. Hann hefur upplifað fleiri verkefni en ungt fólk á hans aldri. Hann er með ættgengan augnsjúkdóm í móður legg. Móðir hans missti sjónina sína árið 2003. Hann missir föður sinn tveimur árum seinna. Sjálfur hafði hann fulla sjón en missir sjónina tvítugur að aldri. Hann er nú með 5% sjón á báðum augum og í raun eini blindi spretthlauparinn í landinu. 

Hann keppir aðallega í 100 metra og 200 metra spretthlaupi og hefur mann sér við hlið í hvert sinn sem hann tekur sprettinn. Þar sem Patrekur hleypur afar hratt eru einungis 10 aðilar í landinu sem geta haldið í við hann. Þeir hafa allir fulla sjón. 

Þrátt fyrir allt er Patrekur duglegur, sterkur og jákvæður ungur maður. Hann ráðleggur öðru fólki að finna sér sína leið og láta ekkert í lífinu stoppa sig.

Hann stefn­ir á Ólymp­íu­mót fatlaðra í Tókýó árið 2020.  Eins og staðan er í dag þá er hann ekki langt frá viðmiðinu. Hann keppti á Íslandsmóti ÍF á dögunum og var einn í sínum flokki. Hann var aðeins undir besta tímanum sínum, enda er hann ný stiginn upp úr meiðslum en er að standa sig frábærlega. 

Íslend­ing­ar eiga mögu­lega fjóra sendi­herra á Ólymp­íu­leika fatlaðra í Tókýó árið 2020. Þess­ir sendi­herr­ar „stefna að hinu ómögu­lega“. Þau æfa nú öll að miklu kappi hver í sinni grein. Þrátt fyr­ir að vera með verk­efni sem snýr að fötl­un þeirra þá eru þau öll búin að ná tök­um á lífi sínu þannig að þau geta skilið mörg okk­ar hinna eft­ir á sund­braut­inni, á hlaupa­braut­inni, í hjól­reiðum eða lang­stökki. En að sjálf­sögðu vinna fjöl­marg­ir fleiri aðilar að því að kom­ast á ólymp­íu­leik­ana; hér á landi og víðar. 

En hvernig fara fatlaðir að því að sigr­ast á fötl­un sinni og keppa á meðal hinna bestu á sínu sviði í heim­in­um? Hvaða hug­ar­far eru þau með og hvert sækja þau lífs­gleðina? Hvað gera þau öðru­vísi? 

Fólkið á mbl.is ætl­ar að reyna að finna út úr því. Þetta er þriðja viðtalið af fjór­um í sum­ar. Hæfi­leika­búntið Patrekur Andrés er eins og viðtalið sýn­ir eng­um öðrum líkur.

Stendur hetjulega upp úr meiðslum

Hvernig ertu að æfa í sum­ar?

„Ég æfi 10 sinnum í viku, fjóra tíma á  dag. Ég hef verið meiddur í níu mánuði á fæti í vetur og er að stíga upp úr því með aðstoð fagmanna, en ég reyni að gera hlutina vel og passa upp á hugarfarið og matarræðið líka. Ég æfi vanalega inni eða úti við Laugardagshöll. Ég lyfti í World Class og reyni að halda reglu á æfingunum.“

Hvernig er matarræðið þitt?

„Ég reyni að borða hollt 87% af tímanum. Ég tek vanalega einn dag í viku þar sem ég leyfi mér að borða óhollt. Ég byrja daginn vanalega á hafragraut, síðan borða ég skyr tveimur tímum seinna. Þá fæ ég mér hádegis mat, kjúkling eða kjöt og síðan tveimur tímum seinna skyr og ávöxt. Rétt fyrir æfingar fæ ég mér vanalega brauðsneið og eftir æfingu fæ ég mér góðan kvöldmat. Á kvöldin fæ ég mér ávöxt og skyr. Þetta geri ég til að passa upp á að ég verði aldrei svangur. Eins viðheldur skipulagið því að ég missi mig ekki í eitthvað sem ég ætla ekki að borða.“

Hefur náð ótrúlegum árangri

Hvernig gekk á Íslandsmóti ÍF á dögunum?

„Ég var eini keppandinn í minni grein og var því að keppa við eigin tíma. Þar sem ég er að ná mér upp úr meiðslum var tíminn aðeins lakari en ég er vanur. En ég fór 100 metra á 12,38 sekúndu og 200 metrana á 25,89 sekúndum. Fyrri tíminn er 0.15 sekúndum frá besta tímanum mínum og seinni tíminn er 0,52 sekúndur frá besta tíma.“

Patrekur þarf að ná að hlaupa 100 metrana undir 11,90 sekúndum til að komast á ólympíuleikana í Tokýó og sömu vegalengd á tímanum 12,10 sekúndur fyrir HM í Dubai sem er ekki langsótt miðað við hvernig hann hefur hlaupið að undanförnu. 

Hvernig er að hlaupa án þess að sjá?

„Ég er alltaf með aðila sem hleypur við hliðina á mér svo ég viti hvert ég á að fara. Helgi Björnsson hefur hlaupið með mér síðustu tvö mótin mín, annars er Andri Snær einnig mér við hönd. Hann hljóp með mér á EM í fyrra.“

Getur hver sem er verið í því að hlaupa með þér?

Nei ég get ekki sagt það, ætli það séu ekki tíu aðilar á landinu sem gætu gert þetta með mér. Þeir hlaupa jafn hratt eða hraðar og eru allir með sjón.“

Tekur ábyrgð á hlutunum sjálfur

Nú er þetta ótrúlegur árangur hjá þér miðað við að þú ert búinn að vera lengi frá í vetur vegna meiðsla. Hverju getur þú þakkað þennan árangur?

„Ég vel að vera í þessari íþrótt, kem mér á æfingar og hef gaman að þessu. Ég er með metnað og viljann til að gera alltaf betur. Síðan á ég góða aðila að líka. 

Mig langar að segja að það er mjög erfitt að slasast á miðju tímabili eins og svo margir íþróttamenn þekkja. Ég datt ekki eða slasaðist heldur myndaðist áverkar á ristinni sem tók nokkrar vikur að finna út úr hvað var. Ég var með stöðuga verki í fætinum og þurfti að ganga með hækjur og síðan spelkur. Í janúar á þessu ári hófst síðan endurhæfing hjá mér sem tók á fjórða mánuð. Ég þurfti að styrkja mig aftur, losna við bólgur og bjúg á fæti. Ég var síðan byrjaður að hlaupa aftur um miðjan maí og kominn á fullt aftur í byrjun júní. Það tók sex vikur að finna út hvað væri í gangi með fótinn á mér og það var án efa erfiður tími þar sem mikil óvissa var með framhaldið hjá mér.“ 

Patrekur hefur notið stuðnings frá frábæru fagfólki sem hann þakkar m.a. fyrir í dag og segir hluta að velgengni hans að undanförnu. Þeir Róbert Magnússon og Ari Fritzon hafa staðið með honum síðustu fimm árin tengt sjúkraþjálfun.

Með æfingunum er Patrekur einnig að nudda og útskrifaðist hann um áramóti úr fagskóla tengt þeirri iðn. 

„Ég hef verið að starfa með Stjörnunni og Leikni og verið að nudda og meðhöndla leikmenn í knattspyrnu hjá þeim á undanförnum mánuðum. Ég hef mikinn áhuga á því að nudda og að koma mér upp feril í þeirri grein. Án allra hindrana væri ég síðan eftir ferilinn minn í spretthlaupi til í að mennta mig sem sjúkraþjálfari og þá hefði ég nuddið með því sem kemur sér vel að mínu mati.“

Sterk fjölskylda með mikla sögu

Hvað getur þú sagt mér um fjölskylduna, er hún mikil stoð og stytta?

„Axel Emil Gunnlaugsson pabbi minn lést árið 2005 úr taugahrörnunarsjúkdómi sem hann fékk árið 1999. Þó sjúkdómurinn hafi tekið hann á sex árum og erfitt hafi verið að horfa upp á það gerast þá kenndi pabbi mér að gefast aldrei upp. Það þurfti að taka fótinn af honum fyrir neðan hné og síðan endaði hann í hjólastól en hann lét ekkert stoppa sig. Hann bara barðist áfram fram á síðasta dag. Hann var mikill skíðamaður áður en hann veiktist og þrátt fyrir að vera búinn að missa getuna til að ganga, þá fór hann á setskíði og ætlaði að keppa á vetrarólympíuleikunum en varð of veikur til að geta látið það ganga. 

Mamma er líka algjör hetja, hún missti sjónina þegar hún var 39 ára og nokkrir í fjölskyldunni hafa misst sjónina eins og við þar sem þetta er í fjölskyldunni og erfist í gegnum móðurlegg. Við erum með Leber hereditary optic neuropathy (LHON). 

Þegar ég varð 20 ára þá tók lífið algjöra beygju hjá mér. Ég var að klára að læra rafirkjann í FB og sjónin fer úr því að vera góð  niður í 5%.

Mamma hafði undirbúið mig fyrir að þetta gæti gerst og alltaf brýnt fyrir mér að lifa reglusömu lífi  svo ég væri ekki að ýta undir líkurnar. Ég hef alltaf farið eftir þessum ráðum hennar.

Ég lifði góðu lífi og var í íþróttum og góðu formi. Þó ég verði að segja að ég sé í betra formi í dag en þá. 

Það tók mig töluverðan tíma að ná mér eftir að hafa misst sjónina en ég ákvað að dvelja ekki lengi við það heldur halda áfram og setja mér stór markmið. Ég vildi ekki missa mörg ár í þunglyndi eða í að líða illa og eiga þá erfiðara með að ná mér upp úr því. 

Það hefur alltaf nýst mér vel að setja mér markmið og það gerði ég tengt spretthlaupinu. ég er þannig að ég á erfitt með að stoppa þegar ég er búinn að ákveða eitthvað.“

Patrekur segist vera í betra formi en áður, hann sé búinn að kaupa sér íbúð og mennta sig meira eftir að hafa misst sjónina, en vill ekki gera lítið úr því að lenda í svona.

„Þetta er stórt verkefni en það gefur manni líka allskonar tækifæri. Sem dæmi hætti ég að geta verið í tölvunni og þá myndaðist tími fyrir margt uppbyggilegt. Ég hef alltaf passað mig að fókusera á jákvæða hluti og góða hluti fyrir mig að gera sem hefur hjálpað mér.“ 

Finndu þínar eigin leiðir

Hvað viltu segja við þá sem hafa misst heilsuna og eru að fóta sig í því?

„Mig langar bara að segja að það er engin ein leið sú eina rétta í þessu. Allir fara sínar leiðir og sama hvaða leið er farin þá er hún rétt fyrir þann sem velur hana. Það eru öll vandamál jafnstór að mínu mati. Að missa tánögl getur verið það erfiðasta sem einhver hefur lent í og síðan sjónina fyrir annan. Tilfinningarnar geta komið upp og verið svipaðar.

Reyndu bara að vera jákvæð/jákvæður og að sinna áhugamálunum þínum. Gerðu eitthvað skemmtilegt og reyndu að hafa gaman að því að lifa. Ef maður setur sér jákvæð markmið þá kemur alltaf eitthvað gott út úr því. En svo er einnig gott að muna að lífið gerist alveg þó maður hafi náð sér eftir svona breytingar.

Ég þekki það af eigin raun. Sem dæmi getur brotið hjarta verið svipað og að missa heilsuna. Maður missir hluta af því sem maður hefur áður haft og það kemur tómleiki.

En við ættum öll að muna að það besta við lífið er að fá að vera til og síðan er það okkar að finna leiðir til að gera sem mest úr því.“

Patrekur segir auðvelt að vera neikvæður og að horfa á það sem miður fer. Að vorkenna sér og sjá hindranir betur en tækifæri. 

„En það er mikill kraftur í mér og ég fer áfram á hörkunni. Það getur verið áskorun en er mín leið og kemur mér áfram í spretthlaupinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
5
Jenny Colgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
5
Jenny Colgan