Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fer fram í Rotterdam eða Maastricht á næsta ári. Keppnin fer fram í Hollandi eftir að fulltrúi landsins fór með sigur af hólmi í söngvakeppninni í Tel Aviv í maí.
Frá þessu greinir ESC Today, fréttasíða Eurovision-aðdáenda.
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Eurovision yrði ekki haldin í Amsterdam, höfuðborg Hollands. Var það vegna þess að þeir tónleikastaðir sem komu til greina voru uppbókaðir fyrstu vikurnar í maí.
Síðan þá hafa þrjár aðrar borgir helst úr lestinni; Utrecht, Den Bosch og Arnhem.
Borgirnar sem eftir standa þykja báðar vel til þess fallnar að halda keppnina á næsta ári og hefur þeim báðum verið heitið ríkulegu fjárframlagi til undirbúnings.
Ákvörðun um staðsetningu keppninnar verður tekin í næsta mánuði.