„Það er auðvitað frábært, sérstaklega þegar maður hefur lagt svona ofboðslega mikið í verkefnið,“ segir tónskáldið Hildur Guðnadóttir, um tilnefninguna til Emmy-verðlauna fyrir bestu tónlist í sjónvarpsmynd eða þætti í stuttseríu. Hildur samdi tónlistina í þáttunum Chernobyl.
Þættirnir um slysið í kjarnorkuverinu í Chernobyl hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir voru frumsýndir á HBO-sjónvarpsstöðinni í vor. Rýnt er í slysið, sem varð 26. apríl 1986, orsakir og viðbrögð sovéskra yfirvalda.
Hildur segir að hún hafi lagt hjarta og sál í verkefnið og að sagan sé mjög mikilvæg. Þess vegna sé gaman að finna fyrir áhuganum og þeim góðu viðtökum sem þættirnir og tónlistin í þeim hafa hlotið.
„Það er alveg æðisleg tilfinning að finna svona sterkt fyrir því og fá þessa stóru viðurkenningu, ekki bara frá almenningi heldur líka fagfólki í bransanum,“ segir Hildur.
Hún segir að þessu fylgi traust varðandi frekari verkefni framundan en fyrir nokkrum árum hafi framleiðendur verið svolítið hræddir við að treysta konum fyrir svo stórum verkefnum:
„Ég þurfti svolítið að berjast fyrir því að vinna mér inn traust, bæði listrænt og skipulagslega séð, og sanna að ég gæti þetta,“ segir Hildur. Hún bætir við að „bara“ það að vera tilnefnd til Emmy-verðlauna gefi til kynna að viðkomandi sé traustsins verður.