Sænska stórstjarnan Alexander Skarsgård er staddur hér á landi og virðist hann hafa slegist í för með Ara Magg ljósmyndara í gönguferð um Vestfirði. Ari birti ljósmynd af Skarsgård fyrr í vikunni þar sem hann virðist vera að njóta náttúrunnar á Vestfjörðum, sitjandi á trjádrumbi.
Skarsgård er þekktastur fyrir hlutverk sín í sjónvarpsþáttunum True Blood og Big Little Lies, en þeir síðarnefndu njóta mikilla vinsælda um þessar mundir.
Hversu lengi hún varir eða hver tilgangur Íslandsferðar Skarsgård er skal ósagt látið en ef til vill hefur hann einfaldlega saknað landsins, en þetta er að minnsta kosti í þriðja sinn sem leikarinn heimsækir Ísland.
Hann kom fyrst hingað til lands árið 2013 þegar hann var nýhættur með þáverandi kærustu sinni Kate Bosworth. Í þeirri ferð naut hann einverunnar og fór í vikulangt göngufrí án allra samskiptatækja.
Fyrir fjórum árum var leikarinn hér á landi í vinnuferð þegar tökur fóru fram á myndinni War on Everyone.