Það hefur ekki farið mikið fyrir kærasta tónlistarkonunnar Rihönnu, Hassan Jameel, í fjölmiðlum. Þau hafa þó verið í sambandi í um tvö ár. Í vikunni sást til þeirra fara út að borða með mömmu Rihönnu og bróður hennar.
Hassan Jameel er viðskiptamaður frá Sádi-Arabíu. Samkvæmt helstu miðlum er hann milljarðamæringur, en hann er varaforseti fyrirtækis fjölskyldunnar, Abdul Latif Jameel. Abdul Latif Jameel er dreifingaraðili fyrir Toyota, Lexus og Daihatsu í Sádi-Arabíu en Jameel var í starfsnámi hjá Toyota í Japan árið 2004.
Hann fór í skóla í Tókýó og útskrifaðist þaðan árið 2001 með BA-gráðu í alþjóðlegri hagfræði. Hann talar ensku, arabísku og japönsku reiprennandi.
Jameel og Rihanna sáust saman í júní síðastliðnum í fríi á Ítalíu ásamt fjölskyldu hans. Hann hefur sjaldan verið með henni á opinberum vettvangi síðan þau byrjuðu saman og hafa sögusagnir oft verið á kreiki um að þau hafi slitið samvistir.
Rihanna minntist aðeins á hann í viðtali við Söru Paulson í Interview í júní síðastliðnum. Hún nefndi hann þó ekki á nafn en sagði Paulson að fletta því upp á netinu hvern hún væri að hitta. Paulson spurði hana hvort þau ætluðu að ganga í það heilaga. Rihanna þagði um stund og sagði svo „Aðeins Guð veit það, vinkona. Við skipuleggjum og Guð hlær, er það ekki?“