Leikaraparið Katie Holmes og Jamie Foxx eru hætt saman eftir sex ára samband. Heimildarmaður People segir að parið hafi hætt saman í maí síðastliðnum. Fregnir af sambandsslitunum komu eftir að Foxx sást í miðborg Los Angeles í Bandaríkjunum með annarri konu.
Holmes og Foxx hafa verið saman frá árinu 2013 en lítið farið fyrir sambandi þeirra og þau sjaldan sést saman opinberlega. Þau stilltu sér upp fyrir myndir saman á Met Gala nú í vor og var það í fyrsta skipti sem mynd var tekin af þeim saman opinberlega.
Í apríl sagði heimildarmaður People í viðtali að þau væru bæði mjög upptekin og hefðu sjaldan tíma fyrir hvort annað. „Þegar þau geta eytt tíma saman, gera þau það. Þegar þau eru upptekin og geta það ekki, gera þau það ekki. Þau eru tveir fullorðnir einstaklingar sem njóta þess að vera með hvort öðru, og hafa gert í langan tíma,“ sagði heimildarmaðurinn.