Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason er tilnefnd er til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Greint var frá því í dag á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi. Þá er myndin einnig í forvali til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, EFA, ásamt 45 öðrum og verða fimm myndir á endanum tilnefndar skv. kosningu meðlima Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.
Fimm kvikmyndir eru tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs en hinar fjórar eru Dronningen frá Danmörku eftir leikstjórann May el-Toukhy, Aurora frá Finnlandi eftir Miia Tervo, Blindsone frá Noregi eftir leikstjórann Tuva Novotny og Rekonstruktion Utøya frá Svíþjóð eftir Carl Javér.
Markmið verðlauna Norðurlandaráðs, sem eru ein eftirsóttustu verðlaunin á Norðurlöndunum, er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um umhverfismál sem og að vekja athygli á verkefnum sem skarað hafa fram úr á sviði lista eða umhverfismála, skv. tilkynningu. Verðlaunaféð nemur 350 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda.
Kona fer í stríð eftir Benedikt Erlingsson hlaut verðlaunin í fyrra en áður hafði hann hlotið þau fyrir Hross í oss. Tilkynnt verður um vinningshafa við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 29. október í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.