Sjónvarpsstjarnan Auðunn Blöndal verður í nýju hlutverki í vetur hjá Stöð 2 en hann mun kynna sjónvarpsþáttinn Allir geta dansað ásamt sjónvarpskonunni Sigrúnu Ósk Kristjánsdóttur. Sigrún Ósk var einnig kynnir í fyrra en Auðunn kemur inn fyrir Evu Laufeyju.
„Þessi tvö kunna ekki að dansa nema eftir nokkra kalda en ætla að kynna Allir geta dansað í haust á Stöð 2,“ skrifaði Auðunn Blöndal í dag á Facebook og birti mynd af sér og Sigrúnu Ósk.
Frægt fólk dansar við vel þjálfaða samkvæmisdansara í þáttunum. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir söngkona fór með sigur af hólmi í fyrra en dansfélagi hennar var samkvæmisdansarinn Max Petrov.