Ljúfi föli rauðhausinn Sheeran

Enski bærinn Ipswich í Suffolk-sýslu hefur til þessa einna helst verið þekktur fyrir afrek á sviði landbúnaðar og einstöku sinnum knattspyrnu. Nú eru tímarnir hins vegar breyttir og smábærinn, sem telur svipað marga íbúa og Reykjavík, hefur eignast sína eigin hetju: Edward Christopher Sheeran. 

Saga Ed Sheeran hefst í enn smærri bæ, Framglingham, þar sem hann hélt sína fyrstu tónleika fyrir 30 manns. Fjórtán árum síðar er söngvarinn að ljúka við tveggja ára tónleikaferðalag þar sem hann hefur sungið og spilað fyrir um níu milljónir manns um allan heim. 

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að Ísland var einn af viðkomustöðum Sheeran. Um 50 þúsund Íslendingar sóttu tónleika poppsöngvarans aðra helgina í ágúst. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Sheeran steig á svið í íslensku landsliðstreyjunni og ljóst er að Sheeran verður héðan í frá einn ástsælasti Íslandsvinurinn. Sjálfur sagðist hann vera í skýjunum með tónleika sína á Laugardalsvelli og Íslandsheimsóknina almennt. 

Divide (÷)-tónleikaferðinni lýkur formlega á morgun, mánudag, þegar Sheeran kemur fram á fjórðu tónleikunum á jafn mörgum dögum í heimabænum Ipswich. 

Bæjarbúar hafa beðið spenntir eftir heimkomunni og hefur sérstök sýning Ed Sherran til heiðurs verið opnuð í bænum undir yfirskriftinni „Made in Suffolk“. Á sýningunni, sem opnaði fyrir helgi, er farið yfir farsælan feril Sheeran. 

Sheeran lagði á sig þrotlausa vinnu til að komast á þann stað sem hann er í dag. Vinnan hefur svo sannarlega skilað sér eins og sést greinilega ef tekjur hans af laginu „Shape of You“ eru skoðaðar, en þær nema 160 þúsund pundum, eða rúmum 24 milljörðum króna. 

Kórdrengurinn og sellóleikarinn Ed

Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna ákveðnina sem Sheeran hefur haft að leiðarljósi á ferlinum; hann ætlaði alltaf að „meika það“, sama hvað. Foreldrar hans hafa stutt við bakið á honum frá upphafi, meðal annars með því að selja ýmis konar varning á fyrstu tónleikunum hans. 

Edward Christopher Sheeran. Þeir gerast varla mikið krúttlegri, er það?
Edward Christopher Sheeran. Þeir gerast varla mikið krúttlegri, er það? AFP

Myndbrot frá æviskeiði Sheeran er að finna á sýningunni þar sem stiklað er á stóru frá barnæsku hans fram á fullorðinsár. Krúttlegur, örlítið búttaður og rauðhærður Sheeran að fikra sig áfram á píanó, trommum og gítar, alltaf með bros á vör er það sem blasir við áhorfendum. Þaðan liggur leið hans í skólakór og skólastrengjasveit Framlingham þar sem hann lék á selló.

Sheeran ætlaði sér alltaf alla leið og 13 ára gamall var hann farinn að syngja á götum úti þar sem hann gaf vegfarendum færi á að leggja fram frjáls framlög í gítarkassann. 

Fæddur til að koma fram 

Ian Johnson upggötvaði Sheeran þegar hann var 16 ára og hjálpaði honum að koma sér á framfæri. Johnson segir í samtali við AFP að hann hafi heillast af því strax frá upphafi hvernig Sheeran nálgast áhorfendur sína. 

Ferill Sheeran fór á flug þegar fyrsta breiðskífa hans, „Plus“ (+), kom út árið 2011. Í kjölfarið fylgdu smellir eins og „Don't,“ „Thinking Out Loud“ og „Castle On The Hill“ þar sem hann syngur um ást sína á að alast upp í „sveitinni“ í Suffolk. 

Gítarinn Dean og Sheeran voru óaðskiljanlegir á unglingsárunum. Gripurinn er …
Gítarinn Dean og Sheeran voru óaðskiljanlegir á unglingsárunum. Gripurinn er til sýnis á sýningunni. AFP

Aðdáendur Sheeran á Íslandi þurfa ekki að örvænta þar sem sýningin verður opin fram á vor og því nægur tími til að gera sér ferð til Ipswich. Tveir gítarar Sheeran eru til sýnis, þar á meðal gítarinn sem Sheeran nefndi Cyril og gegndi stóru hlutverki á yfir 300 tónleikum árið 2009. 

Söngvarinn Barny Holmes sem tróð upp með Sheeran fyrir um áratug segir að velgengni Sheeran megi að hluta til rekja til þess að flestir tengja við lítilmagnann (e. underdog). 

„Hann er þessi auðmjúki, ljúfi, föli rauðhaus… Ég vona að hann fyrirgefi mér fyrir að segja þetta, en hann er þessi ljúfi gaur sem þú einfaldlega býst ekki við að hafa svona mikla og góða nærveru,“ segir Holmes og hlær. 

„Það eru Ed Sheeran-áhrifin,“ bætir hann við. 

Sérstök sýning Ed Sherran til heiðurs stendur yfir í heimabæ …
Sérstök sýning Ed Sherran til heiðurs stendur yfir í heimabæ hans, Ipswich, undir yfirskriftinni „Made in Suffolk“. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan