Á sunnudag verður frumsýnd kvikmynd um Panamaskjölin á Netflix. Kvikmyndin ber nafnið The Laundromat og er stjörnum prýdd en Meryl Streep, Gary Oldman og Antonio Banderas fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni.
Lögmannsstofan Mossack Fonseca verður til umfjöllunar í myndinni, en hún komst í fréttir árið 2016 þegar Panamaskjölin voru birt. Streep fer með hlutverk blaðamanns sem fær veður af skjölunum og kemur því í kring að birta þau. David Schwimmer, Jeffrey Wright, Robert Patrick og Sharon Stone fara einnig með hlutverk í kvikmyndinni.
Kvikmyndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og síðar í september fer hún í kvikmyndahús. Hún verður svo aðgengileg á streymisveitu Netflix 18. október.
Steven Soderbergh leikstýrir kvikmyndinni en handrit hennar byggir á bókinni Secrecy World: Inside the Panama Papers Investigation of Illicit Money Networks and the Global Elite eftir Jake Bernstein sem kom út árið 2017.