Bragi Valdimar flúði í stresskasti

Bragi Valdimar Skúlason baggalútur kemst í jólafílinginn með þér.
Bragi Valdimar Skúlason baggalútur kemst í jólafílinginn með þér. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ég kemst í jólafíling, klikkaðan jólafíling,“ segir í kvæðinu góða eftir Braga Valdimar Skúlason, einn liðsmanna Baggalúts og hirðskáld hljómsveitarinnar. Ljóst er að margir landsmanna komast ekki í téðan jólafíling án þess að fá að fylla hlustirnar með tónum sveitarinnar, slögurum á borð við Kósíheit par exelans, Jólalalag og Söguna af Jesúsi. Er það orðinn árlegur viðburður hjá jólabörnum víða um land að sækja sívinsæla jólatónleika sveitarinnar, en miðasala á tónleikana hófst nú klukkan tíu, og má búast við að miðarnir seljist hratt, eins og mörg seinustu ár.

Þegar mbl.is sló á þráðinn til Braga Valdimars nú rétt áður en opnað var fyrir miðasölu sagðist hann hreinlega hafa flúið land. Sé nú staddur í Svíþjóð í stresskasti. Það má þó greina gamansaman tón í rödd Braga þegar hann segir frá þessu. Ekki við öðru að búast enda Baggalútsmenn annálaðir húmoristar. 

Tveir dagar til að skreyta og baða sig

Sautján tónleikar verða haldnir, svipað og fyrri ár, og er þetta fjórtánda árið í röð sem sveitin heldur jólatónleika, telur Bragi. Segir hann að í fyrra hafi þeir komið upp kojum í Háskólabíói meðan á vertíðinni stóð. „Þetta var eins og að vera á góðum togara!“

Eftir fjórtán ár af samspili ættu menn að vera orðnir nokkuð samstilltir. Þarf nokkuð að æfa? „Tjahh. Maður þarf aðeins að liðka puttana. Og hrista upp í mannskapnum,“ svarar skáldið. 

Baggalútsmenn eru fyrir löngu orðnir frægir fyrir jólatónleikahald sitt.
Baggalútsmenn eru fyrir löngu orðnir frægir fyrir jólatónleikahald sitt.

Spurður hvort menn séu ekki komnir með nóg eftir tíu eða tólf tónleika svarar Bragi glettinn: „Það er merkilegt hvað við náum að hafa gaman af þessu. Við erum svona farnir að læra lögin eftir tíu tónleika.“

Síðustu tónleikar verða haldnir 21. desember, og þá getur eiginlegt jólahald hafist hjá Baggalútsmönnum. „Við höfum þarna góða tvo daga til þess að skreyta og baða okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar