Áheitamet var slegið í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár en alls söfnuðust 167.483.404 krónur til 181 góðgerðarfélags. Það er 6,7% hærri upphæð en safnaðist í fyrra.
Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin í tæplega 990 milljónir.
Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2019 fór fram í gær. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum í Norðurturni. Á uppskeruhátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðarfélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunarinnar.
Þeir hlauparar sem söfnuðu mestu fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í gær. Þá voru einnig veitt verðlaun til góðgerðarfélaga sem voru með hvatningarstöð á hlaupaleiðinni. Um var að ræða útdráttarverðlaun að upphæð 50 þúsund krónur fyrir tvö félög sem voru með hvatningarstöð þar sem allir hlaupa hjá og 100 þúsund krónur fyrir eitt félag sem var með stöð þar sem aðeins maraþonhlauparar fara hjá. Það voru Samtök um endómetríósu og Villikettir sem fengu 50.000 krónur hvor og Ljósið, endurhæfing fyrir krabbameinsgreinda sem fékk 100.000 krónur.
Olga Katrín Davíðsdóttir Skarstad safnaði mest allra einstaklinga, 1.400.000 krónum fyrir Vini Ólavíu – styrktarfélag. Olga Katrín fékk einnig flest áheit, 240 talsins. Arnar Hallsson safnaði næstmest, 1.027.100 krónum fyrir CMT4A-styrktarsjóð Þórdísar. Í þriðja sæti einstaklinga var Agla Sól Pétursdóttir sem safnaði 959.000 krónum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB). Sá hlaupahópur sem safnaði mestu var Vinir Ólavíu en þau söfnuðu 3.886.000 krónum og fyrirtækjahópurinn sem safnaði mestu var Deloitte sem safnaði 851.265 krónum.