Hljómsveitin Baggalútur sendi frá sér nýtt lag í gær sem ber nafnið Upp í bústað. Lagið er titillag sýningar Borgarleikhússins, Sex í sveit. Baggalútsmenn þarf vart að kynna til sögunnar en þeir hafa verið starfandi um árabil og eru jólatónleikar þeirra sérstaklega vinsælir ár hvert.
Bragi Valdimar Skúlason samdi bæði lag og texta. Leikritið verður frumsýnt 5. október í Borgarleikhúsinu og skartar nokkrum skærari stjörnum hússins, þar á meðal Katrínu Halldóru Sigurðardóttur sem fór með hlutverk Ellýjar í einni vinsælustu sýningu síðari ára.