Fagna fjölbreyttum kvillum

Hildur Loftsdóttir, verkefnastjóri listahátíðarinnar Klikkaðrar menningar.
Hildur Loftsdóttir, verkefnastjóri listahátíðarinnar Klikkaðrar menningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilgangurinn með hátíðinni er að fagna fjölbreytileikanum í geðrænum kvillum. Bæði sem upplifun og sem uppsprettu listrænna hæfileika. Oft sprettur listræn sköpunarþörf úr andlegri þjáningu,“ segir Hildur Loftsdóttir, verkefnastjóri listahátíðarinnar Klikkaðrar menningar sem hefst í Reykjavík í dag, 19. september. Þar verður að finna þétta menningardagskrá til 22. september.

Langflest atriði á hátíðinni hafa einhverja tengingu við geðheilsu en hátíðin er haldin í tilefni 40 ára afmælis Geðhjálpar. „Geðhjálp berst fyrir bættum hag þeirra sem eiga við geðrænan vanda að stríða og aðstandenda þeirra,“ segir Hildur. „Við tengjum oft við list sem hefur verið sköpuð af fólki sem tekist hefur á við geðrænar áskoranir vegna þess að við göngum sjálf í gegnum erfiðleika einhvern tímann í lífinu; vinnumissi, hjónaskilnað eða hvað sem það er. Þá komumst við á einhvern mjög lágan punkt þar sem við getum skilið hvað þeir sem eru í stöðugri glímu við geðheilsuna ganga í gegnum.“

GDRN á Iceland Airwaves í fyrra. Hún er meðal þeirra …
GDRN á Iceland Airwaves í fyrra. Hún er meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram á Klikkaðri menningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er allt klikkað“

Allir listamennirnir sem fram koma á hátíðinni eða sýna list sína þar eru á einn eða annan hátt tengdir umræðunni um geðheilsu, að sögn Hildar. „Þetta er allt klikkað. Ef það er ekki eitthvað sem er tengt geðrænum áskornunum þá er þetta bara klikkað skemmtilegt því það eru allir svo velviljaðir þessum málstað.“

Hildur nefnir sérstaklega þrjár listsýningar til sögunnar í þessu samhengi. „Listahópurinn Listamenn með kvíða verður með listsýningu. Elín Atím sýnir listaverkið „Þessi tími var ógeðslegur“ sem fjallar um hennar tíma á geðdeild. Ingibjörg Eyfjörð sýnir ljósmyndir sem hún kallar „Sálræna litadýrð“, hún málar sig í framan og tjáir sína andlegu líðan þannig,“ segir Hildur.

Stór hluti tónlistarfólksins sem fram kemur á hátíðinni hefur tjáð sig um andlega erfiðleika. „Til dæmis Högni og Jónas Sigurðsson. Einnig hafa Flóni og GDRN talað um erfiða líðan og tilfinningar. Þannig hefur allt tónlistarfólkið sem kemur fram á stóru tónleikunum í Hafnarhúsinu talað opinberlega um geðheilsu sína,“ segir Hildur en fjölskyldutónleikar verða haldnir í Hafnarhúsi á laugardag, 21. september.

Jónas Sigurðsson treður upp á hátíðinni.
Jónas Sigurðsson treður upp á hátíðinni. mbl.is/Hari

Fólk breytist í bækur

Á hátíðinni verður aragrúi af fleiri viðburðum, til dæmis fyrirlestrar, kvikmyndir og lifandi bókasafn. „Fólk sem hefur gengið í gegnum andlegar þrengingar eða á jafnvel við alvarlegan geðrænan vanda að stríða verður þar í hlutverki bóka. Þú getur komið á bókasafnið og séð hvaða bækur eru í boði og ákveðið að fá eina bók lánaða. Svo ferðu inn í herbergi með bókinni og hún segir þér sína sögu.

Bókin ræður för en þú mátt oftast spyrja hana og þetta endar bara í svona mannlegu spjalli. Það er hægt að læra svo mikið af þessu og komast betur inn í þennan heim með því að tala saman á þennan hátt. Þetta er lærdómur fyrir þann sem er að hlusta og valdeflandi fyrir bókina, þann sem segir frá,“ segir Hildur og bætir því við að hátíðin passi einstaklega vel inn í samfélagsumræðuna hérlendis.

„Það eru allir að pæla í geðheilbrigði og það er bara svo mikil vakning í samfélaginu núna sem gerir það að verkum að þessi hátíð er algjörlega á réttum tíma.“

Hildur segir að hátíðin sé jafnvel nauðsynleg íslensku samfélagi. „Fólk er að tala um geðrænan vanda alls staðar og er að opna augun fyrir þessu en á hátíðinni vona ég að verði smá sprengja. Í fyrsta lagi getur fólk komið saman og lært hvað af öðru, í öðru lagi mun þetta vonandi færa umræðuna upp á næsta stig. Við þurfum að auka sýnileikann og normalísera fjölbreytileikann í geðheilsu landsmanna. Við erum öll með geðheilsu, sumir slæma, aðrir góða og allt þar á milli.“

Jákvæðar hliðar vandans

Spurð hvort orðið „klikkuð“ geti ekki borið í sér neikvæða merkingu segir Hildur: „Oft þegar við erum að lýsa hlutum segjum við klikkað, brjálað, geggjað, tryllt, tjúllað, sjúklegt og æðislegt. Þetta eru allt orð sem tengjast geðrænum vanda og þau eru öll jákvæð. Þetta þýðir eitthvað jákvætt og eitthvað skemmtilegt vegna þess að þegar fólki tekst að hugsa út fyrir boxið, eins og okkar listamönnum, þá verður til eitthvað frumlegt og áhugavert, og er þar með æðislegt og geggjað.“

Rithöfundurinn Mary O´Hagan heldur erindi á Alþjóðlegu málþingi í Hafnarhúsinu …
Rithöfundurinn Mary O´Hagan heldur erindi á Alþjóðlegu málþingi í Hafnarhúsinu og verður með vinnustofu í Geðhjálp.

Aðspurð segir Hildur að hátíðin sýni fram á hliðar andlegra kvilla sem geti verið jákvæðar. „Það eru margir sem koma fram og ég hef talað við einstaklinga sem hafa lent í mjög erfiðri lífsreynslu í sambandi við geðheilsu. Margir segja að þeir hefðu ekki viljað missa af andlegum veikindum þar sem veikindin gerðu einstaklinginn að þeim sem hann er í dag. Í þessu samhengi má nefna gestafyrirlesarann okkar, Mary O'Hagan, sem skrifaði bókina Madness Made Me. Auðvitað eru margir sem myndu alls ekki vilja vera svona veikir en þetta á samt að vera svolítil gleðihátíð. Fögnum fjölbreytileikanum, forvitnumst um líðan hvert annars og tölum sjálf um okkar geðheilsu.“

Dagskrá Klikkaðrar menningar er að finna á www.klikkud.is en frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan