Það er ekki útlit fyrir að tónlistarkonan Britney Spears muni losna undan forræði föður síns á næstunni. Jamie Spears hefur farið með forræði yfir henni um árabil, en óskaði eftir að annar forráðamaður yrði skipaður yfir dóttur hans tímabundið. Hann fer þó enn með fjárhagslegt forræði yfir henni og tekur við hinum hlutanum af forræðinu aftur í janúar á næsta ári.
Fjölskyldan kom fyrir rétt í síðustu viku þar sem móðir Spears, Lynne, óskaði eftir að Jamie yrði ekki gerður aftur að forráðamanni dóttur þeirra. Hann segir ástæðuna fyrir að hann hafi stigið til hliðar sem forráðamaður vera vegna heilsu sinnar, en raunin er sú að fyrrverandi eiginmaður Britney fékk nálgunarbann gegn honum fyrir syni þeirra.
Jamie má því ekki koma nálægt afastrákunum sínum, sem reglulega eru í umsjón Britney og forráðamanns hennar.
Dómari kvað upp í málinu á miðvikudag að Jamie skyldi fara með forræði yfir fjárhag dóttur sinnar og hefur hann möguleika á að taka við meginforræðinu í janúar 2020.