Þjóðleikhúsið leitar að hæfileikaríkum krökkum til þess að taka þátt í uppsetningu á Kardemommubænum á þessu leikári. Opnar áheyrnarprufur fyrir krakka á aldrinum 9-17 ára fara fram 12.-15. október næstkomandi, en skráning í prufurnar hófst í gær.
Kardemommubærinn verður afmælissýning Þjóðleikshússins, sem fagnar 70 ára afmæli sínu á þessu leikári. Verkið verður frumsýnt í apríl í leikstjórn Ágústu Skúladóttir. Á meðal leikara eru þau Örn Árnason, sem leikur Bastían bæjarfógeta og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sem leikur Soffíu frænku. Þá fara þeir Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi), Hallgrímur Ólafs og Oddur Júlíusson með hlutverk ræningjanna.
Í áheyrnarprufunum er leitað að börnum og unglingum með mikla færni í leik, söng og dansi. Annars vegar er leitað að börnum á aldrinum 9-13 ára til þess að fara með tvö stór og krefjandi hlutverk þeirra Kamillu og Tomma og hins vegar börnum og ungmennum á aldrinum 9-17 ára til þess að fara með hlutverk íbúa og dýra í hinum litríka Kardemommubæ.
Skráningarfrestur í prufurnar er til 1. október, en þrír af listrænum stjórnendum sýningarinnar munu hafa umsjón með prufunum; Ágústa Skúladóttir leikstjóri, Chantelle Carey danshöfundur og Karl Olgeirsson tónlistarstjóri.