Bulsur og bopp

Prins Póló fagnar tíu ára afmælinu á tíu ára afmæli …
Prins Póló fagnar tíu ára afmælinu á tíu ára afmæli Havarís. Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir

Svavar Pétur Eysteinsson þekkja kannski ekki allir, en allir kannast við lagasmiðinn og söngvarann Prins Póló, aukasjálf Svavars, sem lét fyrst heyra í sér fyrir áratug með plötunni Jukk. Prinsinn er þó ekki það eina sem Svavar hefur fengist við um tíðina, því hann stofnaði menningarmiðstöðina Havarí með Berglind Hässler, eiginkonu sinni, líka fyrir áratug, og er að auki bulsu- og boppuppfinningarmaður og framleiðandi.

Undanfarin ár hafa Havarí og Prinsinn búið á Karlsstöðum í Berufirði, þar sem Svavar og Berglind reka einnig gistingu og matstað og framleiða bopp. Síðsumars var Havaríi svo lokað fyrir veturinn því þau hyggjast dvelja hér syðra í vetur með börnin, sinna vinum og ættmennum, menningarstússi og mannlífi. Lokaballið í Havaríi á Karlsstöðum var haldið fyrir fullu húsi með liðsinni FM Belfast, sem slúttaði einnig starfi Havarís í Reykjavík fyrir áratug, og vitanlega tróð Prinsinn einnig upp tíu ára gamall á tíu ára afmæli Havarís.

Gleðibankinn breytti lífi mínu

Það var tónlist á heimilinu Svavars, pabbi hans, Eysteinn Pétursson eðlisfræðingur, spilaði á ýmis hljóðfæri, gítar, píanó og harmonikku, og þau hljóðfæri voru öll til á heimilinu. „Það var hægt að grípa í hljóðfæri sama hvar maður var staddur, en það var ekkert popp fyrr en ég sá Eurovision 1987, Gleðibankinn breytti lífi mínu og ég fór strax í það að semja Eurovision-lag. Ég reyndi að fá pabba með mér en honum fannst það glatað, en áhuginn var kviknaður og ég fór að læra á rafmagnsgítar hjá Ólaf Gauk. Eftir það langaði mig að eignast svoleiðis gítar, en þegar pabbi fór og spurði Ólaf hvort það væri eitthvað vit í þessu hjá mér sagði hann að rafmagnsgítarinn væri bara bóla. Ég man svo vel eftir þessu því þegar pabbi sagði mér hvað hann hefði sagt skildi ég ekki hvað hann átti við — hvað þýddi það að rafmagnsgítarinn væri bara bóla?

Ég hætti því hjá Óla og fór að læra á klassískan gítar hjá Steingrími Birgissyni, sem var í S/H Draumi, í Tónskóla Sigursveins. Þá var ég að kynnast S/H Draumi og spilaði skala í tímum hjá hjá honum og fór svo heim að hlusta á hann spila á rafmagnsgítar — fyrir mér var hann og S/H Draumur eins og Johnny Marr og Smiths.

Eftir að ég hætti í því tónlistarnámi keypti ég mér rafmagnsgítar og fór að glamra og hef verið að gera það síðan. Ég græddi á því að læra, en áttaði mig á því að ég þurfti ekki að læra meira, næsta skref var að gera hlutina sjálfur og það er sú hugmyndafræði sem ég hef tileinkað mér.“

Múldýrið

Múldýrið var fyrsta hljómsveitin mín sem gaf eitthvað út, það kom út 7" 1996, en þar á undan var ég í grunnskólahljómsveit sem hét Blimp og tók þátt í Músíktilraunum 1992.

Múldýrið byrjaði þegar ég var í framhaldsskóla, hét fyrst Muleskinner. Bibba Curver, sem var með okkur í FB, fannst alveg glatað að vera með enskt nafn á hljómsveitinni og stakk upp á því að við myndu endurnefna okkur Múldýrið og við gerðum það á staðnum. Þá var hann í Brim og við sóttum áhrif til Brimsins. Síðasta útgáfan á Múldýrinu, sem var á sjötommunni sem kom út 1996, var Prinsinn sjálfur, Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur, Einar Þór Kristjánsson, plötusölumaður, eða Einar Sonic, Kristinn Gunnar Blöndal, plötusnúður, og tónlistarmaður, og Helgi Örn Pétursson, tónlistarmaður á Seyðisfirði.

Múldýrið tók nokkrum breytingum og það voru tekin nokkur hliðarspor, breyttist í hljómsveitina Emmett 1997 og átti tvö lög á safnskífunni Spírur. Elísabet Ólafsdóttir söng með okkur. Það var mjög skemmtilegur kafli, en ekki mjög langur.“

Rúnk

Sumarið 2002 var ekki þverfótað fyrir hljómsveitinni Rúnki. Sveitina skipuðu þau Hildur Guðnadóttir, Benedikt Hermann Hermannsson, Björn Kristjánsson, Óli Björn Ólafsson og Svavar Pétur. Hún spilaði víða innan lands og utan, gaf út plötur og skipulagði hátíðir, en svo skyndilega var allt búið.

„Við Hildur þekktust, höfðum oft talað saman um tónlist og vorum búin að leggja drög að einhverskonar hljómsveitastússi saman. Hún var svo í leikhúsverkefni hjá Hinu húsinu ásamt Benna Hemm Hemm, flakkaði um bæinn og spilaði músík. Svo kom upp í hendurnar á þeim tilboð um að fara til Belgíu og spila á tónlistarhátíð. Til þess vantaði hljómsveit svo Hildur tók upp símann og hringdi í þá sem hún hafði rætt músík við og nokkrum dögum síðar hittist þessi hópur, meirihluti fólks sem þektist ekki neitt. Ég þekkti náttúrlega Hildi, en Benna ekki neitt og ekki Bjössa. Þekkti þó Óla Björn úr Árbænum og í kringum Yukatan.

Við settumst niður eina kvöldstund og byrjuðum að semja lög. Við náðum svo svakalega vel saman, sömdum tíu lög á nokkrum dögum og tíu dögum síðar vorum við komin til Belgíu. Á meðan þetta gerðist allt saman varð Rúnk-konseptið til, meðal annars með því að við vorum öll með skærlitaðar derhúfur sem við fundum á flóamarkaði. Það varð eitt einkenni Rúnks, við fórum ekkert á svið án þess að allir væri með sínar húfur og ég held að prinsinn hafi tekið þetta með sér. Þetta var mikið flipp og ærslagangur, allt svo ógeðslega fyndið og skemmtilegt og allt leyfilegt.

Þetta var ekki langur tími, en uppúr þessu samstarfi varð Innipúkinn til, sem er enn í gangi, og Viðeyjarhátíð, við gerðum jólaplötuna Jólin eru... og breiðskífuna Ghengi Dahls en þegar við hittumst til að taka upp aðra plötu þá var allt stopp, þetta var bara búið — þetta var bomba og svo var fólk farið að hugsa um eitthvað annað.“


 

Skakkamanage

Svo fæddist Skakkamanage sem sólóverkefni, ég tók upp plötu einn inni í herbergi, sjö laga plötu, sem er stundum kölluð Fjársjóðsplatan því það stóð bara framan á henni fjársjóðskort innifalið. Hún kom út 2003. Ég var búinn að fela fjársjóð einhversstaðar uppi í Öskjuhlíð og það var hægt að finna hann með því að nota kortið sem var inni í plötunni. Fjársjóðurinn er örugglega enn uppi í Öskjuhlíð, en ég man ekki hvað þetta var.

Á þessum tíma kynntist ég Berglindi og þegar ég stofnaði hljómsveit í kringum Skakkamanage bauð ég henni að vera með og Þormóði Dagssyni. Það komu svo fleiri við sögu síðar.

Nafnið á sveitinni var viðurnefni sem Gústi, Gústaf Bergmann Einarsson, vinur minn, kallaði mig alltaf, eitthvað útí bláinn. Sumir eru þannig að þeir verða alltaf að kína einhverjum viðurnefnum á fólk og hann er einn af þeim, ég hét alltaf þetta hjá honum. Þegar ég var að leita mér að nafni fyrir útgáfuna á Múldýrinu, því ég gaf það út bara prívat eftir að bandið var hætt, þá nefndi ég útgáfuna Skakkamanage. Svo þegar mig vantaði nafn á hljómsveit þá bara ákvað ég að taka nafnið á útgáfunni.


 

Prins Póló

Prinsinn varð svo til á Seyðisfirði veturinn eftir að við fluttum austur. þar var ég kominn á litlu listamannalaunin svokölluðu og hafði nógan tíma. Þegar maður flytur út á land fyllist maður af sveitarómantík og þjóðrembu, eðlilega, og ég fékk allt í einu áhuga á því að fara að semja texta á íslensku, popplög án þess að vera popp. Ég veit reyndar ekki hvort ég ákvað það það ekki en þetta þróaðist í þessa átt, ætli ég hafi ekki verið kominn aftur í Gleðibankann, aftur á byrjunarreit, í íslenska 90's músík.

Þetta hefur alltaf verið sólóverkefni, en ég verð að stoppa við þessa þörf til að tjá mig um eitthvað rosalega hversdagslegt, koma því einhvernvegin frá mér, koma hversdagslegum hlutum frá mér í tónlist, það sem ég sem Íslendingur er að upplifa á mínu eigin skinni og ekkert yfir það, eins hversdagslegt og Prins Póló er. Ég fann það fljótlega að mér fannst gaman að að fjalla um hluti sem ég var að upplifa og ég vissi að miklu fleiri væru að upplifa líka.



Þetta var líka munurinn á því að gera tónlist án þess að vera undir áhrifum af áfengi eða vímuefnum og svo edrú. Ég hætti að drekka, hætti að nota allt, hreinsaði mig. Ég hélt að myndi aldrei gera nokkuð skapandi ef ég hætti að nota hugbreytandi efni, en uppgötvaði að það var þveröfugt: ég fékk algert frelsi. Það sem hefur haldið mér gangandi sem listamaður er það að mér er alveg sama um afleiðingarnar og þannig get ég bara hugsað edrú.

Ég hafði verið að sulla frá unglingsárum, mikið í kringum músík fram að þessu. Rauði þráðurinn var alltaf fylleríið og sullið fram að fylleríinu. Það var orðið rosalega þreytandi og ég var löngu búinn að gefast upp á því en þorði bara ekki að taka skrefið því ég var viss um að það yrði svo ógeðslega leiðinlegt að hætta, var skíthræddur við það að drepast úr leiðindum, en svo varð allt skemmtilegra, auðveldara, þægilegra og betra, einsog margir þekkja.“

Tónlist og myndlist

„Ég hafði gaman af að krota, hef aldrei verið góður teiknari, en ágætis krotari. Eftir menntaskóla var ég að velta því fyrir mér hvert yrði mitt næsta skref á menntagöngunni og valið stóð á milli rafmagnsverkfræði eða grafískrar hönnunar. Ég prófaði að skrá mig í nokkra stærðfræðikúrs í kvöldskóla og svo í teikningu í myndlistardeildinni. Það endaði með því að ég mætti ekkert í stærðfræðina en kláraði teiknikúrsinn þannig að ég fór í grafíska hönnun.


Það var allskonar brölt á mér á þessum tíma, hugurinn var úti um allt, tónlistin tók mikinn toll og það var líka mikið djamm með. Þetta var samt ótrúlega góður tími líka og ég fékk réttlætingu á því að það væri í lagi að vera listamaður. Það var í raun mesti lærdómurinn, það dýrmætasta sem ég lærði, að gera bara það sem mann langar að gera, skapa það sem mann langar að skapa og það hefur reynst mér í öllu.

Þegar ég var búinn í skólanum fór ég að vinna á auglýsingastofu og síðan sem blaðamaður á DV og loks hjá JPV sem hönnuður. Ég vann þar í nokkur ár og gerði helling af auglýsingum og bókakápum — það var að mörgu leyti skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið, en á þessum tíma var ég líka með allskonar hugmyndir og ranghugmyndir um lífið. Eftir það hætti ég að vinna hjá öðrum nema sem frílans og áttaði mig á því að ég þyrfti líka að hætta að drekka.



Bulsur

Tónlistamaður og grafískur hönnuður og bulsupabbi - eftir að Svavar hætti að borða kjöt saknaði hann þess að geta ekki skellt pylsum á grillið og 2012 fékk hann þá flugu í höfuðið að búa til grænmetispylsur.

„Ég hætti að borða kjöt um tíma og fékk þá strax sterka lögum í pulsur og fannst ég verða að gera eitthvað i þessu. Ég tók upp símann, hringdi upp í Matís og fékk samband við mann þar sem heitir Óli Þór Hilmarsson. Ég sagði honum hvað ég væri að pæla og hann sagði bara: Já, komdu á fund hér á þriðjudaginn. Fundurinn endaði með því að ég gerð samning við MATÍS um aðgang að eldhúsi og klæddi mig því í slopp og fór að sjóða allt saman, að reyna að búa pulsu sem innihéldi ekki kjöt og væri að megninu til hráefni sem hægt er að rækta hér á Íslandi.“

Grillaðar bulsur að hætti Prinsins.
Grillaðar bulsur að hætti Prinsins. Ómar Óskarsson

„Eftir tólf mánuði var ég búinn að leysa flest vandamál og hanna umbúðirnar og koma þessu í framleiðslu. Það varð að vera pínulítið íslenskur landbúnaður í þessu og eftir þetta bulsuævintýri var komin hjá okkur þörf á að taka þetta að lengra.

Við vorum með rófusnakk líka, ræktuðum rófurnar sjálf, en það náði aldrei uppúr handverksfasanum og við gátum ekki staðið í því með öllu öðru sem við vorum að gera. Núna erum við með nýtt pródúkt við erum að framleiða, poppaðar byggflögur sem við köllum Bopp.“

Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir

Karlsstaðir

Eins og nefnt er hér að ofan fluttu þau Berglind austur á Seyðisfjörð eftir að Svavar hætti hjá Forlaginu og voru þar einn vetur og tvö sumur, Berglind að vinna hjá Ríkisútvarpinu og Svavar að skapa Prinsinn. Þau fluttu svo í bæinn aftur og opnuðu plötubúð í samvinnu við plötuútgáfuna Kima, Gogoyoko og Borgina, útgáfu Hjálma. Búðin sú, Havarí, sem varð fljótlega meira en bara plötubúð, var opnuð í Austurstræti í september 2009. „Þegar við vorum búin að opna spurðu margir Hvað er þetta? en við gátum ekki svarað því. Fegurðin í Havarí var að þar gat allt gerst,“ segir Berglind.


 

„Hugmyndin var að opna plötubúð, en svo varð Havarí að einskonar félagsmiðstöð og svo fór myndlistarkreðsan að hreiðra um sig og bókverkaforlagið og bókabúðin Útirdúr leigði aðstöðu hjá okkur,“ segir Svavar og Berglind heldur áfram: „Þetta var í byrjun ferðamannasprengjunnar og útlendingar voru farnir að sýna þessu mikinn áhuga þannig að þetta var mjög tregafullt þegar við þurftum að loka, við vorum ekki tilbúin að hætta, þó við höfum vitað allan tímann að við myndum ekki hafa húsnæðið nema í stuttan tíma. Við leituðum lengi að nýju húsnæði, en fundum ekki annað húsnæði, fannst það of dýrt.“

Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir

Um líkt leyti voru þau farin að velta því fyrir sér að flytja aftur út á land og voru alltaf að skoða jarðir til sölu. Á endanum ákváðu þau að flytja austur, það væri hæfilega langt til að ekki væri hægt að skreppa í bæinn í tíma og ótíma og á endanum urðu Karlsstaðir í Berufirði fyrir valinu. Ein janúardag ákváðum við að fara og skoða jörðina, sem var þá hálfgerð eyðijörð, og við sáum möguleika í húsunum á staðnum fyrir allar hugmyndirnar.“ Svo fór að þau keyptu Karlsstaði og settust þar að, ræktuðu rófur, boppuðu, byggðu gistihús, og endurvöktu Havarí.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir