Sóttardraumur í San Francisco

Hljómsveitin Of Monsters and Men er á rúmlega árs löngu …
Hljómsveitin Of Monsters and Men er á rúmlega árs löngu tónleikaferðalagi í kjölfar plötu sinnar Fever Dream sem fór rakleiðis í 9. sæti Billboard 200-listans vestanhafs. Arnar Rósenkranz Hilmarsson trommuleikari og Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari, ræddu við mbl.is rétt fyrir tónleika í Kaliforníu á þriðjudaginn. Ljósmynd/Moriah Berger/Mick Management

Fyrirsögn þessa viðtals er reyndar helber lygi. Tónleikar hljómsveitarinnar Of Monsters and Men, sem upphaflega átti að halda í Bill Graham Civic Auditorium í San Francisco á þriðjudaginn, voru færðir yfir til nágrannaborgarinnar Oakland, nánar tiltekið í Fox Theater þar í bæ. Í ljósi þess að Oakland er hálfgerður Kópavogur út úr San Francisco, með fullri virðingu fyrir Kópavogi auðvitað, fékk fyrirsögnin að standa.

Fimmmenningarnir úr Garðabæ, Garði, og Keflavík ferðast um þessar mundir um Bandaríkin, Kanada, England og reyndar mun fleiri lönd til að fylgja eftir plötu sinni Fever Dream sem kom út 26. júlí og segja má að hafi uppskorið svo sem sáð var til, og rúmlega það, en Sóttardraumurinn kleif bandaríska Billboard 200-vinsældalistann á ljóshraða og fór beint í 9. sætið en óhætt er að minna á að allar þrjár plötur sveitarinnar hafa náð inn fyrir vébönd efstu 10 sæta listans annálaða.

Arnar og Ragnar buðu blaðamanni og ljósmyndara inn í búningsherbergi …
Arnar og Ragnar buðu blaðamanni og ljósmyndara inn í búningsherbergi sitt í iðrum Fox Theater og sögðu frá tónleikaferðinni, nýlegum golfáhuga sveitarinnar og þeirri upplifun að spila fyrir fullu húsi í Radio City Hall í New York í byrjun mánaðarins. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

Þegar blaðamaður steig út úr leigubíl við Fox Theater upp úr klukkan fimm að staðartíma á þriðjudaginn hafði töluverð röð þegar myndast við aðalinngang tónleikastaðarins og aðeins mínútum síðar náði hún fyrir næsta horn byggingarinnar. Var þó auglýst að tónleikarnir hæfust klukkan 20:00.

Íslenskumælandi tour manager

Ekki leið á löngu uns hinn geðþekki fararstjóri, eða tour manager, sveitarinnar, Cameron Stewart, kom út um hliðardyr og sótti blaðamann og frú. „Sæl verið þið,“ sagði Stewart á íslensku eins og ekkert væri sjálfsagðara. „Ég tala pínulítið íslenska,“ bætti hann við og útskýrði kunnáttu sína með sjö ára samstarfi við hljómsveitina. Stewart leiddi gestina fram hjá fjölda öryggisvarða og um margar luktar dyr þar til komið var að skilti með áletruninni „OMAM BÚNINGSHERBERGI DRESSING ROOM“. Þar fyrir innan leyndist ákaflega vistlegt herbergi þar sem tveir ungir menn sátu makindalega í sófa, Garðbæingarnir Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari, og Arnar Rósenkranz Hilmarsson trommuleikari.

Eftir að þrír Garðbæingar höfðu heilsast með virktum 7.000 kílómetra frá fornum heimaslóðum var ekkert annað í spilinu en að hjóla í spurningarnar enda stutt í tónleika og sveitin störfum hlaðin. Ekki var annað hægt en að óska sveitinni til hamingju með velgengni Fever Dream-plötunnar og spyrja þá í framhaldinu hver galdralykillinn væri að því, fyrir íslenska hljómsveit, að koma öllum plötum sínum hingað til í efstu tíu sæti Billboard-listans.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég var ekki einu sinni búinn að pæla í þessari staðreynd,“ segir Arnar, en Ragnar kemur honum til hjálpar: „Það er spurning, maður kemst bara yfir eitthvert ákveðið stig og þá allt í einu bíður fólk bara spennt eftir næsta og næsta og næsta, þetta vindur einhvern veginn bara upp á sig,“ segir Ragnar og á erfitt með að greina velgengni Of Monsters and Men frekar.

Gaman að sjá sömu andlitin

Sveitin hvarf af sjónarsviðinu í nokkur ár áður en Fever Dream reis eins og hamraborg upp úr íslenskri tónlistarsenu í sumar. Er ekkert mál að fara bara í langt hlé, koma svo aftur og slá í gegn á núll fimm, man fólk eftir ykkur strax? „Það virðist vera,“ kastar Arnar fram og Ragnar tekur við: „Við vorum alveg að túra, svona í eitt og hálft ár, fram í 2016 seint, og þetta er kannski ekkert löng pása þannig lagað ef maður horfir á hvenær plöturnar koma út. En jú jú, ég játa að okkur finnst mjög gaman hvað fólk man eftir okkur, það er gaman að vera á túr og sjá sömu andlitin og áður og svo ný andlit,“ segir Ragnar glaðbeittur.

Blaðamaður skýtur því hér inn að hann hafi verið staddur í áfengisverslun í Santa Barbara nokkrum dögum áður og þar verið spurður um þjóðerni. Þegar því var upp ljóstrað hafi afgreiðslumaðurinn allur tekist á loft og sagt að þar í bænum hafi risastór íslensk hljómsveit (e. huge Icelandic band) haldið tónleika tveimur dögum áður, Of Monsters and Men, sem væri algjörlega hans uppáhaldssveit.

Þeir sveitarmenn hafa gaman af sögunni en fá enga hvíld. Næst er spurt hvernig ferðalagið hafi gengið fram að þessu og nefnir blaðamaður að hann hafi reyndar verið staddur örskammt undan þegar sveitin spilaði í New York 4. september. „Það var rosalegt show,“ segir Ragnar, „okkur hefur alltaf langað að spila í Radio City. Það var ótrúleg tilfinning bara og það seldist upp sem er alltaf gaman, það eru held ég 6.000 miðar. Það er bara gaman að vera með uppselda tónleika í miðri New York,“ segir hann og trommuleikarinn tekur undir.

Arnar Rósenkranz Hilmarsson trommuleikari segir það nýlundu að nú séu …
Arnar Rósenkranz Hilmarsson trommuleikari segir það nýlundu að nú séu börn í fylgd pabba og mömmu farin að birtast í aðdáendahópi Of Monsters and Men. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

„Þetta hefur gengið mjög vel,“ tekur Arnar við af félaga sínum. „Þetta hefur verið alveg eins og smurt, og svo komumst við í gírinn fyrir nokkrum giggum síðan, það er langt síðan við spiluðum á tónleikum og manni er farið að líða vel á sviðinu. „Þetta er bara keyrsla,“ segir Ragnar, „við vöknum, svo er alltaf acoustic setup á einhverjum útvarpsstöðvum og að auki alltaf einhver viðburður yfir daginn, við erum alltaf með soundcheck-partý þar sem fólk kemur og hlustar á okkur, svo eru tónleikarnir sjálfir og svo bara keyrt á næstu borg, á morgun erum við að spila í Seattle,“ útskýrir Ragnar.

Æfa í gamla FG

Þegar minnst er á Seattle tekur eiginkona blaðamanns viðtalið í sínar hendur og bendir Arnari og Ragnari á að þeir megi ekki fara varhluta af að skoða hið goðsagnakennda Subterranean-hljóðver Dave Grohl, sem gerði garðinn frægan með Nirvana og síðar Foo Fighters, sem byggt er í helli í Shoreline, norður af Seattle. Samsinna þeir félagar þessu og berst þar með talið að hljóðveri sem Of Monsters and Men byggðu sér.

Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari Of Monsters and Men, segir …
Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari Of Monsters and Men, segir vinnslu leikinna myndbanda reyna töluvert á. „Maður er allt í einu orðinn leikari og kannski ekkert rosalega hrifinn af því,“ segir Ragnar og hlær við. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

„Þetta byrjaði nú bara svona hrátt, þetta var bara æfingahúsnæði fyrst,“ segir Ragnar og Arnar grípur fram í fyrir honum: „Þetta var gamli FG, matsalurinn þar gamli í Lyngásnum,“ og óvænt þögn skellur á meðan þrír gamlir nemendur Fjölbrautaskólans í Garðabæ minnast ára sinna þar. „Við erum búin að vera að rífa einhverja veggi niður og svona en við erum enn að æfa þarna. Þjóðminjasafnið var þarna í húsinu líka og svo eru einhverjir listamenn með aðstöðu á efri hæðinni,“ segir Arnar, en skólinn flutti í nýtt húsnæði fyrir rúmum tveimur áratugum.

En hvernig kom þetta æfingahúsnæði við Lyngásinn til? „Við erum náttúrulega úr Garðabænum og spurðum bara hvort einhver möguleiki væri á húsnæði þar,“ rifjar Ragnar upp. „Svo spiluðum við á tónleikum á Vífilsstaðatúni og vorum með þessa tengingu við Garðabæinn auðvitað. Við vorum í FG þegar Þorsteinn [Þorsteinsson] var að hætta sem skólameistari og svo tók hann við, sá sem leyfði okkur að æfa í skólanum, æ, hann þarna dökkhærði með skeggið... „Kristinn Þorsteinsson,“ skýtur blaðamaður inn. „Já, hann, æ, ég er svo lélegur með nöfn,“ segir Ragnar hlæjandi. „Man samt alltaf eftir Gunnlaugi [Sigurðssyni skólastjóra] í Garðaskóla, maður gleymir honum ekki,“ bætir hann við. „Já, hann varð nú áttræður á föstudaginn,“ upplýsir blaðamaður. „Hvernig veistu það?!“ spyrja viðmælendur í kór og fá þá skýringu að blaðamaður sé einfaldlega tengdur sínum gamla skólastjóra á Facebook.

„Við erum drulluleiðinleg“

Blaðamaður gerir nú veika tilraun til að ná viðtalinu í sínar hendur á ný. Hvernig heldur hljómsveitin dampi á margra mánaða tónleikaferðalögum dags daglega, er það bara einn bjór, stunda þau jóga eða hvert er leyndarmálið? „Maður reynir nú að halda sig sem mest frá bjórnum,“ segir Ragnar alvörugefinn, og Arnar tekur undir með honum. „Það er það sem dregur úr manni,“ heldur söngvarinn áfram, „maður þarf að hafa orku og svona. Bara...“ hér hikar Ragnar. „Erum við ekki soldið leiðinleg bara?“ kemur Arnar til hjálpar. „Jú, við erum drulluleiðinleg bara,“ tekur Ragnar undir og þeir félagar hlæja svo undir tekur í búningsherberginu.

„Það kom þarna ár þar sem við vorum bara að …
„Það kom þarna ár þar sem við vorum bara að ná okkur niður, það var þvílíkt mikið að gera frá 2010 til 2016, við gáfum út fyrstu plötuna, túruðum, komum svo heim í smástund, gerðum næstu plötu, fórum til LA og kláruðum hana og allt í einu vorum við byrjuð að túra hana svo við hvíldum okkur aðeins í tíu mánuði eða eitthvað og svo byrjuðum við bara aftur,“ lýsa Arnar og Ragnar annasömu hljómsveitarlífi sínu. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

„Maður er bara alltaf að slaka sér eitthvað,“ segir Arnar, „við erum byrjuð að fara í golf og eitthvað svona, reyna aðeins að komast út í náttúruna inn á milli.“ „Aðeins að hreinsa hausinn bara,“ samsinnir Ragnar, „við erum nýfarin af stað aftur og við reynum bara að njóta þess.“

Hvernig skyldi þá vera með starfsfólk á svo stóru tónleikaferðalagi, notast Of Monsters and Men við sitt eigið fólk eða leggur hver tónleikastaður til mannskap? „Við erum með crew sko, erum með allt mögulegt með okkur,“ segir Ragnar og Arnar heldur áfram: „Við erum með gítar-tech og trommu-tech og svo erum við með monitor-gæja og hljóðmann og ljósamann,“ en á meðan þylur Ragnar endalausar stöður á ensku. „Það er enginn Íslendingur með okkur núna, við vorum með nokkra í fortíðinni en annars höfum við haft margt sama starfsfólkið bara frá byrjun og svo er auðvitað alltaf líka local crew. Og tour manager-inn okkar, hann Cameron [Stewart, áðurnefndur], er alveg frábær og hann er alltaf að kynnast einhverju fólki sem hann svo pikkar út,“ heldur Ragnar áfram og mærir hinn hálf-íslenskumælandi tour manager í hástert.

„Svo bara reiknast þetta út“

„Og hver borgar þetta allt saman?“ spyr blaðamaður í forundran, eins illa að sér í undraheimi tónleikaferðalaga sem mest má vera. „Þetta virkar þannig að við erum með promoter á hverjum stað sem leggur út fyrir þessu,“ útskýrir Ragnar, „og hann tekur við sölunni á tónleikunum og svo bara reiknast þetta út einhvern veginn,“ heldur hann áfram, greinilega ekki mikið meira inni í þessari hlið en blaðamaður.

Dagskrá vikunnar á auglýsingaskilti Fox Theater í Oakland.
Dagskrá vikunnar á auglýsingaskilti Fox Theater í Oakland. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hefur þá verið uppselt á alla tónleikana í þessu ferðalagi? „Ekki alla,“ svarar Ragnar, „en marga,“ skýtur Arnar inn og bætir því við að uppselt sé á tónleikana í Fox Theater á þriðjudagskvöldið. „Við fáum ekkert að vita um þetta nema við spyrjum,“ segir Arnar og hlátrasköllin glymja um búningsherbergið.

Hvað skyldu Of Monsters and Men þá kalla góða tónleika? „Maður vill ná crowd-inu,“ svarar Ragnar strax, og Arnar tekur undir með honum. „Þegar crowd-ið er einhvern veginn í fílíng,“ og eiga þeir félagar þar við sauðsvartan pupulinn þegar þeir kasta crowd-hugtakinu fram. „Það þýðir ekkert endilega að það séu 8.000 manns, það getur verið geðveikur fílíngur á 1.500 manna giggi,“ segir Ragnar með áhersluþunga. „Maður vill að fólkið sé present og ekki bara í símanum og svona. Auðvitað er það þannig nú til dags að allir rífa upp símana á stóru mómentunum þegar maður vill að allir séu með manni að syngja. Þannig að maður reynir að ná fólki sem fyrst, reynir að ná því með sér,“ segir Ragnar. „Maður nærist á því,“ tekur Arnar undir.

Röð var tekin að myndast utan við Fox Theater þremur …
Röð var tekin að myndast utan við Fox Theater þremur tímum fyrir tónleika og mátti þar sjá fulltrúa allra aldurshópa. Tónleikagestir sem mbl.is ræddi við létu mjög vel af tónleikunum að þeim afstöðnum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Eldra og yngra fólk í aðdáendahópnum

Blaðamaður biður Arnar og Ragnar að bera þetta ferðalag saman við risaferðalag sveitarinnar um Bandaríkin fyrir nokkrum árum og greina hvað hafi breyst. Trommuleikarinn verður fyrir svörum: „Maður er að sjá aðeins eldra fólk í aðdáendahópnum, jafnvel líka yngra fólk, allt niður í börn með mömmu og pabba og eitthvað, mér finnst það svona smá breyting.“ Ragnar tekur við: „Fólkið sem byrjaði að hlusta á okkur fyrir tíu árum er líka bara orðið eldra. Þetta er orðið mjög skemmtileg blanda,“ segir Ragnar.

Blaðamaður víkur talinu að myndböndum sveitarinnar og vitnar í viðtal sem Helgi Snær Sigurðsson blaðamaður tók fyrir mbl.is í maí þar sem Ragnar og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona sögðu frá gerð myndbandsins við lagið Alligator af Fever Dream-plötunni og samstarfi þeirra við Jón Sæmund Auðarson myndlistarmann við gerð þess. Burtséð frá því samstarfi, hvernig fær hljómsveitin hugmyndir að myndböndum á borð við það sem lagið Little Talks skartaði hér um árið og verður að teljast í meira lagi framúrstefnulegt?

„Þetta er mismunandi,“ segir Ragnar, og Arnar tekur strax undir: „Little Talks var náttúrulega bara unnið í samstarfi við animation-fyrirtæki í Kanada, WeWereMonkeys. Yfirleitt kemur kveikjan að hugmyndinni frá okkur en eins og í Little Talks var heimurinn dálítið þeirra að búa þetta til. Við vorum ekkert endilega að rýna í söguna þar, en okkur fannst bara það sem þau voru að gera flott,“ segir Arnar frá. „Þetta er bara að finna fólk sem þú tengir við á einhverju leveli og getur unnið með,“ segir Ragnar, „og það getur alveg verið mjög strembið að gera það, finna rétta fólkið og svona og við höfum alveg gert hluti sem okkur finnst mjög mistækir líka. Þetta getur verið rosa törn, gerist oft á stuttum tímabilum, sérstaklega ef allt myndbandið er ekki animation [teiknað], þá getur þetta verið allur dagurinn, öll nóttin og öll næsta nótt líka,“ rifjar Ragnar upp.

„Þetta er gaman en reynir mikið á mann sem tónlistarmann, maður er allt í einu orðinn leikari og kannski ekkert rosalega hrifinn af því,“ segir Ragnar og þeir Arnar skellihlæja í sófanum. „Þú ert nú dálítill leikari,“ segir Ragnar glettinn við Arnar sem svarar „Já, er það, ég hef nú ekki fengið að skína neitt í þessum myndböndum.“ „Jæja, kannski næst,“ svarar Ragnar og hláturinn glymur á ný.

Ferðalag fram að jólum 2020

Hversu víða liggur leiðin á þessu ferðalagi þá? „Bara út um allt,“ svarar Arnar. „Já, við ætlum bara að fara sem víðast,“ samsinnir Ragnar, „við ætlum til Asíu og Ástralíu, það er reyndar ekki búið að bóka allt. Við höfum farið í næstum allar heimsálfur og ætlum að gera það bara aftur,“ segir Ragnar af einurð þess sem ætlar sér stóra huti. „Ég held að það sé reiknað með að þessi túr standi fram að jólum 2020,“ segir Arnar án þess að blikna á meðan blaðamaður reynir að ímynda sér slíkt ferðalag.

Á sviði í Fox Theater. Þakið ætlaði af húsinu þegar …
Á sviði í Fox Theater. Þakið ætlaði af húsinu þegar upphafstónar lagsins Little Talks frá 2011 bárust út í salinn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Er hægt að lifa á tónlistinni eða gerir hljómsveitin eitthvað annað í atvinnuskyni á milli platna og ferðalaga? „Já já, þetta er náttúrulega bara það sem við gerum,“ svarar Ragnar og Arnar tekur undir með honum: „Það kom þarna ár þar sem við vorum bara að ná okkur niður, það var þvílíkt mikið að gera frá 2010 til 2016, við gáfum út fyrstu plötuna, túruðum, komum svo heim í smástund, gerðum næstu plötu, fórum til LA og kláruðum hana og allt í einu vorum við byrjuð að túra hana svo við hvíldum okkur aðeins í tíu mánuði eða eitthvað og svo byrjuðum við bara aftur.“

Það er komið að lokaspurningum, styttist í tónleika og ótækt að halda liðsmönnum sveitarinnar á snakki endalaust. Hverjir eru helstu áhrifavaldar Of Monsters and Men, úr hvaða brunnum draga þau vatn sitt? „Það er örugglega mjög ólíkt innan hópsins en við eigum nú öll eitthvað sameiginlegt,“ svarar Arnar. „Við höfum öll verið miklir Bon Iver-aðdáendur [amerísk indie-hljómsveit frá Wisconsin],“ „Og Grizzly Bear líka [rokksveit frá New York],“ bætir Ragnar við, „mikið hlustað á þá í rútunni,“ en að auki sammælast þeir félagar um Ohio-hljómsveitina The National. „Brynjar [Leifsson] gítarleikari er líka alltaf mikið í svona re-mix-um og danstónlist,“ segir Ragnar.

Hvernig líst þeim þá á kvöldið í kvöld í Oakland og hvers vegna voru tónleikarnir fluttir frá San Francisco? „Það eru oft einhver tæknileg atriði. Stundum endar maður á verri stað en stundum betri. Ég held að þetta verði geggjað,“ segir Ragnar. „Já, þetta er mjög nice staður,“ samsinnir Arnar og nefnir sérstaklega leikhússætaskipan Fox Theater. „Þá er eins og sé svona veggur af fólki og þá myndast oft dálítið skemmtileg stemmning. Þetta verður spennandi.“

Með þeim orðum lauk skemmtilegu viðtali við þá félaga Arnar Rósenkranz Hilmarsson og Ragnar Þórhallsson úr hljómsveitinni Of Monsters and Men sem örskömmu síðar stóð á sviði Fox Theater í Oakland fyrir fullu húsi.

Þakið bifaðist við Little Talks

Áður en tekið var að hleypa inn í tónleikasalinn náði röðin fyrir tvö horn hússins og var stemmningin orðin töluverð. Fyrst steig upphitunarsveitin Lower Dens á svið, bandarísk indie-poppsveit frá Baltimore sem hitar upp fyrir Íslendingana nokkra tónleika þessa ferðalags en einnig mun hafnfirska sveitin Vök koma þar við sögu er á líður.

Of Monsters and Men fluttu tónleikaþyrstum Bandaríkjamönnum 18 lög í …
Of Monsters and Men fluttu tónleikaþyrstum Bandaríkjamönnum 18 lög í Fox Theater á þriðjudagskvöldið og var sveitin klöppuð upp tvisvar við mikla stemmningu viðstaddra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Nokkur tími leið eftir að Lower Dens slógu sinn síðasta tón þar til liðsmenn Of Monsters and Men tóku að tínast inn á sviðið við mikil fagnaðarlæti. Slíkar kúnstpásur skemma ekki, að áliti þess sem hér skrifar, spennan magnast upp og stemmningin eykst í húsinu.

Tónar lagsins Alligator, flaggskips plötunnar Fever Dream, bárust fyrstir út í salinn og var ljóst af viðtökunum að bandarískir áhorfendur höfðu unnið heimavinnuna sína og þekktu vel til. Í kjölfarið fylgdu Empire og Ahay. Hljómburður í Fox Theater er með ágætum og með metnaðarfullu ljósaverki skapaðist mikil stemmning í húsinu.

Eins og við var að búast bifaðist þak Fox Theater þegar upphafstónar lagsins Little Talks af plötunni My Head is an Animal frá 2011 bárust út í salinn. Pupullinn gekk einfaldlega af göflunum og sungu tónleikagestir með, augljóslega vel lesnir í fræðunum.

Hljómsveitin lék alls 18 lög, þar af Dirty Paws og Yellow Light eftir uppklöpp. Að svo miklu leyti sem sá sem hér skrifar getur skilað tónleikagagnrýni af viti, sem er ekki endilega áreiðanlegt, voru þessir tónleikar Of Monsters and Men í Oakland hin besta skemmtun og gerðu þeir tónleikagestir sem rætt var við góðan róm að. Sannarlega enginn sótthitadraumur þar á ferð þrátt fyrir titil plötunnar og ferðalagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir