Hjónin George og Amal Clooney fagna brúðkaupsafmæli í dag, 27. september. Fimm ár eru síðan að leikarinn kvæntist mannréttindalögfræðingnum í Feneyjum. Clooney-hjónin virðast bara verða lukkulegri með árunum.
„Hann kann að meta lífið með henni,“ sagði heimildarmaður People um hjónaband Clooney-hjónanna í tilefni brúðkaupsafmælisins. „Þau eru svo fallegt par á svo marga vegu.“
Hjónin eiga tveggja ára gamla tvíbura þau Ellu og Alexander og þrátt fyrir að þau sinni bæði störfum sem vekja mikla athygli hafa þau náð að halda tvíburunum fyrir utan sviðsljósið. Segir heimildarmaður að annað foreldrið reyni alltaf að vera til staðar fyrir börnin.
Í þessari viku mætti Clooney á fund á vegum sameinuðu þjóðanna en eiginmaður hennar var við tökur á Netflix-myndinni Good Morning, Midnight.