Óvænt í hlutverki Nicos biskups

Á settinu. Palli kominn í skrúða biskups, hér með Josh …
Á settinu. Palli kominn í skrúða biskups, hér með Josh Dun (t.v.) og Tyler Joseph, meðlimum Twenty One Pilots.

Þá vantaði ljósan hest og sextugan karlmann, grannan og hávaxinn, sem gæti setið þann hest. Ég reyndist smellpassa í hlutverkið,“ segir Páll Gunnarsson, en hann hefur í þrígang leikið í tónlistarmyndbandi hjá bandarísku hljómsveitinni Twenty One Pilots. Bandið er tvíeyki skipað ungu mönnunum Tyler Joseph og Josh Dun, en þeir piltar eru vel þekktir í tónlistarheiminum, fengu t.d. Grammy-verðlaun árið 2015 fyrir lag sitt Stressed Out.

„Þeir voru aftur tilnefndir til Grammy fyrir lagið Jumpsuit, en tónlistarmyndabandið við það lag var einmitt það fyrsta sem ég lék í hjá þeim. Þeir komu til Íslands til að taka upp myndbandið og það var tekið upp í Stakkholtsgjá í Þórsmörk. Það var mjög gaman að taka þátt í þessu, ég var klæddur í skikkju með hettu á höfði og svartmálaður fyrir neðan nef en hvítmálaður þar yfir ofan og hárið rakað af hausnum. Minn leikur fólst í að þeysast þannig til fara í Stakkholtsgjá á honum Hana, ljósgráum hesti frá Skálakoti undir Eyjafjöllum, þar sem ég starfa á sumrin við hestaferðir. Ég var í hlutverki demónísks biskups sem þeir kalla Nico í laginu,“ segir Páll, sem nokkrum dögum síðar fékk upphringingu þar sem falast var eftir því að hann tæki aftur að sér hlutverk Nicos í tveimur öðrum tónlistarmyndböndum.

Palli í hlutverki Nicos biskups á þeysireið á Hana.
Palli í hlutverki Nicos biskups á þeysireið á Hana.

„Ég varð fúslega við þeirri bón, en þau myndbönd voru tekin upp í Kíev eða Kænugarði í Úkraínu. Fyrra myndbandið var tekið upp í gömlum háskóla og þar var ég aftur í hlutverki Nicos sem messar yfir níu manna söfnuði sínum og herjar á söngvarann, en lagið heitir einmitt Nico and the Niners. Þetta er sagnaheimur sem þeir hafa skapað og Nico biskup kemur einnig við sögu í þriðja myndbandinu, Levitate, sem var tekið upp í skógi. Þetta var heilmikið ævintýri og gaman að kynnast strákunum í hljómsveitinni. Þetta eru vænstu piltar.“

Búið að girða, næst að byggja

Páll fékk ekki aðeins þetta óvænta hlutverk í tónlistarmyndböndum í gegnum vinnu sína með hesta í Skálakoti, heldur varð starf hans þar einnig til þess að nú hefur hann keypt sér lóð á Kostaríku, í Mið-Ameríku.

Með Hana á leið á tökustað.
Með Hana á leið á tökustað.

„Þetta kom þannig til að vinátta tókst með mér og hjónum frá Kostaríku sem komu í Skálakot til að fara á hestbak og gista. Þau reka sjálf hestabúgarð heima hjá sér og bjóða ferðamönnum upp á alls konar ferðir. Þau buðu mér að koma í heimsókn til sín ef ég kæmi til Kostaríku og ég skellti mér nokkrum mánuðum síðar. Ég var hjá þeim í viku og fór á hestbak á hverjum degi. Þau eru með skemmtilega hesta sem eru blendingar af spænskum hestum og arabískum og eru aðeins hærri en íslenski hesturinn. Býlið þeirra er í San Carlos, en þaðan er um klukkutíma keyrsla að landamærum Níkaragva,“ segir Páll, sem ferðaðist mikið um, fór í fjórhjólaferð að heitum lindum, skoðaði dýralíf og þjóðgarða.

„Þessi vinur minn skipulagði ferðalag um landið fyrir mig, ég fór niður að landamærum Panama, keyrði upp í fjöllin og að lokum niður að strönd. Síðustu þrjár nætur var ég hjá honum og þá sagði hann mér að þau hjónin og börnin þeirra þrjú væru að pæla í að koma aftur til Íslands, sem þau og gerðu núna í byrjun árs 2019. Þá lánaði ég þeim bílinn minn og þau óku hringinn í kringum Ísland. Það er gaman að geta launað greiða,“ segir Páll, sem flaug með þeim út þegar þau fóru aftur heim til Kostaríku og dvaldi í tvo mánuði.

„Fljótlega eftir það hringdi hann í mig og sagði lóð til sölu rétt hjá þeim. Ég sló til,“ segir Páll og hlær, en enginn húsakostur er á þeim hálfa hektara sem hann keypti.

„Ég er búinn að láta girða og næsta skref er að byggja hús. Mér líður eins og ég sé einn af fjölskyldunni og hlakka til að eiga þarna sumarhús fyrir mig og mína.“

Gerir það sem dettur í hug

Páll segist afskaplega ánægður í starfi sínu sem vinnumaður í sveit í Skálakoti, hjá Guðmundi Viðarssyni, en þar er boðið upp á hestaferðir yfir sumarið inn á hálendið.

Palli á spjalli við Josh Dun við tökur á tónlistarmyndbandi …
Palli á spjalli við Josh Dun við tökur á tónlistarmyndbandi þeirra,en hann segir þá pilta báða, hann og Tyler Joseph, vera hina vænstu pilta.

„Ég byrjaði sem meðreiðarsveinn en hef verið heilsársmaður undanfarin þrjú ár. Ég starfaði sem vélstjóri á sjó alla mína starfsævi fram að því og nú kann ég því vel að gera það sem mér dettur í hug þegar mér dettur í hug. Ég sé fyrir mér að vera í Skálakoti á sumrin í hestaferðum en á Kostaríku yfir dimmasta veturinn. Kostaríka er mikil paradís, gróðursæl og fögur með ríku dýralífi. Þetta er öruggt land og friðsælt, þar er enginn her, yfirvöld geta því notað peningana í að byggja upp innviði frekar en að sólunda þeim í hernaðarbrölt. Fyrir vikið er menntun fólksins á hærra stigi en í löndunum í kring. Alveg nýr heimur opnaðist fyrir mér við það að ferðast til þessara framandi landa, fyrst til Perú með dóttur minni og svo til Kostaríku, Gvatemala og Kolumbíu. Menningin og náttúran eru ólík því sem ég hef áður kynnst,“ segir Páll, sem flaug í þriðja sinn til Kostaríku nú í vikunni með börnum sínum tveimur.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. september.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að gera einhverjar breytignar til að ná orkunni upp. Taktu ekki fólkinu þínu sem sjálfsögðum hlut. Hrósaðu og þakkaðu fyrir allt sem þú hefur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Jónsdóttir
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að gera einhverjar breytignar til að ná orkunni upp. Taktu ekki fólkinu þínu sem sjálfsögðum hlut. Hrósaðu og þakkaðu fyrir allt sem þú hefur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Jónsdóttir
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Jojo Moyes