Franski kvikmyndarleikstjórinn Claire Denis er heiðursgestur Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, RIFF, í ár og hlýtur hún heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi listræna sýn sína.
Denis kemur til landsins síðdegis í dag og mun taka við verðlaununum á Bessastöðum annað kvöld, en Guðni Th. Jóhannesson veitir verðlaunin. Í kvöld verður kvikmynd hennar Let the Sunshine in, eða hleyptu sólskininu inn, sýnd í Bíó Paradís en Denis mun sjálf kynna myndina fyrir sýningu.
Á morgun fer fram svokallað meistaraspjall á milli Denis og Auðar Övu Ólafsdóttur rithöfundar, þar sem farið verður yfir feril Denis sem þykir afar margbrotinn. Þá verður kvikmyndin Chocolat sýnd í Bíó Paradís annað kvöld og mun Denis kynna myndina fyrir sýningu.
„Það er RIFF mikill heiður að taka á móti Claire Denis og kynna hana fyrir íslenskum áhorfendum og bransafólki. Stefnt er að því Claire haldi meistaraspjall en það hefur verið mikilvægur hluti dagskrár undanfarin ár. Þá gefst fólki tækifæri á að tala við hana um hvað það er sem drífur hana áfram og fá innsýn inn í gerð kvikmynda hennar,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.
Denis er ein þekktasta kvikmyndagerðarkona heims og jafnframt ein af skærustu stjörnum franskrar kvikmyndagerðar. Hún er ekki síst þekkt fyrir áhugaverð sjónarhorn þar sem jaðarhópar og mismunandi menningarheimar fá vægi og rödd sína heyrða.