„Mestu vonbrigði ársins eru komin,“ segir Peter Bradshaw, kvikmyndagagnrýnandi breska miðilsins The Guardian, í gagnrýni sinni um nýjustu kvikmynd Todd Phillips, Joker.
Bradshaw er síður en svo ánægður með kvikmyndina en myndin er frumsýnd um allan heim í dag. Joker fjallar um baksögu Jókersins, versta óvinar ofurhetjunnar Batman. Hún segir frá hinum misheppnaða Arthur Fleck sem fær enga aðra vinnu en að leika trúð. Myndin gerist á 9. áratugnum og er Fleck fyrrverandi sjúklingur á geðhjúkrunarheimili en fær nú að búa hjá aldraðri móður sinni.
Bradshaw segir myndina vera alvöruþrungna en grunnhyggna. Hann er hrifinn af frammistöðu leikarans Joaquin Phoenix en raunsæ smáatriði og langdregið efni dragi myndina niður.
Hann bendir á að Phillips hefur áður leikstýrt kvikmynd með hlægilegri en meðaumkunarverðri persónu með námsörðugleika og á þar við Alan í The Hangover sem leikinn var af Zach Galifianakis. „Ég velti því fyrir mér hvernig Jókerinn væri ef Galifianakis færi með aðalhlutverkið. En, ráðning Phoenix gefur augljóslega til kynna að Jókerinn eigi að vera kynþokkafullur,“ skrifar Bradshaw.
Bradshaw sér skírskotanir í fjöldann allan af dægurmenningu og ber Jóker Phoenix saman við frammistöðu annarra sem hafa einnig farið með hlutverk hans í gegnum tíðina. Honum finnst hann of þroskaður en ekki jafn teiknimyndalegur og þegar Jack Nicholson fór með hlutverk hans í Batman-mynd Tim Burtons.
„Það er engin ástæða fyrir að baksaga Jókersins ætti ekki að vera jafn áhrifamikil og hins dularfulla og tilefnislausa Jóker Heath Ledgers í The Dark Knigt. En á einhverjum tímapunkti þurfti að opna teiknimyndaheim illmennanna og Ledger var áhrifameiri þar sem hann var ekki dreginn niður af öllum þessum raunsæu smáatriðum og myrku atriðum, allur söguþráðurinn var ekki í höndum hans. Þessi Jóker á bara inni einn leikþátt: fyrsta leikþáttinn. Þessi kvikmynd nær því einhvern veginn að vera hræðilega alvarleg og mjög grunnhyggin,“ skrifar Bradshaw.
Kvikmyndagagnrýnandi The New York Times A. O. Scott er heldur ekki ánægður með Joker og er fyrirsögn hans einfaldlega „Joker gagnrýni: Ertu að grínast í mér?“
Hann veltir því fyrir sér hvort leikstjóri myndarinnar sé virkilega sá hinn sami og leikstýrði gamanmyndunum The Hangover og Road Trip sem eru taldar virkilega hlægilegar kvikmyndir.
Scott segir myndina ekki virka innan teiknimyndakvikmyndanna. „Joker er saga illmennis, sem fjallar um persónu sem er með þrenn Óskarsverðlaun á ferilskránni. Það er ekki erfitt að sjá hvað heillar. Jókerinn táknar stjórnleysi, getur verið leikinn af gamansemi eða alvöru, hann getur verið hræðilegur eða fyndinn eða allt á sama tíma. Hann getur verið með hæðnisglott Jack Nicholson, eða urrað eins og Heath Ledger eða ég er ekki alveg viss hvað Jared Leto gerði en skiptir ekki máli. Þegar Joaquin Phoenix leikur hann hlær hann mikið - nógu mikið til að tryggja að enginn annar muni hlæja. Aðalsmerki þessa Jókers er alvöruþrungin heimska,“ skrifar Scott.
Hann spyr í lok pistilsins hvort brandarinn sé að myndin sé hvorki fyndin né hægt að taka alvarlega.