Trommuleikarinn Ginger Baker, sem þekktastur er fyrir að hafa verið í hljómsveitinni Cream ásamt Eric Clapton og Jack Bruce, er látinn. Hann var 80 ára.
Baker varð heimsfrægur fyrir trommuleik sinn en sjálfur sagði hinn rauðhærði Baker að hlutverk hans væri fyrst og fremst að láta aðra í hljómsveitinni líta vel út.
Cream var stofnuð árið 1966 en hætti rúmum tveimur árum síðar. Áhrif sveitarinnar voru engu að síður mikil og segja má að hún hafi lagt grunninn að harðri rokktónlist og síðar þungarokki.
Mikil spenna var milli hljómsveitarmeðlima sem leiddi til endalokanna árið 1968 eftir þrjár plötur og kveðjutónleika í Royal Albert Hall.
Ástæða stutts líftíma hljómsveitarinnar voru átök en Baker og Bruce rifust stöðugt. Hljómsveitin sneri stuttlega aftur árið 2005 en endurkoman litaðist af átökum félaganna á sviði.