Joaquin Phoenix, sem fer með hlutverk Jókersins í samnefndri kvikmynd, kom áhorfendum í bíósal í Alamo Drafthouse-kvikmyndahúsinu í Los Angeles um helgina skemmtilega á óvart þegar hann birtist í salnum, ekki í gervi Jókersins þó.
Áhorfendur brugðust mismunandi við, sumir hoppuðu hæð sína af gleði og spjölluðu við Phoenix á meðan aðrir sátu agndofa í sætum sínum. Phoenix gaf sér tíma til að spjalla við aðdáendur, svara spurningum og taka nokkrar sjálfur.
Hann gaf sér einnig tíma til að útskýra nokkur atriði í myndinni og segja nánar frá tökunum.
„Ég hef séð svo margar útgáfur af myndinni, ég fæ ekki að sjá hana á sama hátt og þið, kannski er það betra, ég veit það ekki alveg,“ sagði Phoenix meðal annars og uppskar hlátur bíógesta. „En já, ég er hrifinn af myndinni,“ bætti hann við.
Jókerinn var frumsýndur víða um heim um helgina og var aðsóknin góð þrátt fyrir misjafna dóma. Jókerinn hlaut aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í síðasta mánuði, Gullna ljónið, en kvikmyndagagnrýnendur The Guardian og The New York Times voru ekki hrifnir.
Það virðist ekki hafa haft áhrif á aðsókn en alls seldust miðar fyrir 93,5 milljónir dollara í Bandaríkjunum og 140,5 milljónir á heimsvísu, samkvæmt Warner Bros.
Hér á landi sáu rúmlega 14 þúsund manns Jókerinn og seldust miðar fyrir um 20 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Sambíóunum.