Ríkisstjóranum Tony Evers hefur ekki snúist hugur í máli Making a Murderer-stjörnunnar Brendan Dassey þrátt fyrir að raunveruleikaþáttastjarnan Kim Kardashian West hafi reynt að hafa áhrif á hann.
Tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá Dassey lausan úr fangelsi fyrr, en hann hefur setið inni síðan árið 2005. Dassey er dæmdur fyrir morðið á ljósmyndaranum Teresu Halbach og voru hann og frændi hans Steven Avery umfjöllunarefni þáttanna Making a Murderer.
Mál Dassey og Avery vakti mikla athygli árið 2015 í kjölfar þáttanna Making a Murderer sem aðgengilegir eru á Netflix. Í þáttunum er Dassey látinn líta út fyrir að vera fórnarlamb aðstæðna, en hann var 16 ára þegar hann var dæmdur.
Kardashian West endurtísti mynd af bréfi sem Dassey skrifaði til ríkisstjórans og merkti Evers í færsluna. Evers segir að afskipti Kardashian West af málinu muni engin áhrif hafa á meðferð málsins og að Dassey muni fá sömu meðferð og aðrir. Þá skipti ekki máli fylgjendafjöldi Kardashian West á Twitter, 62 milljónir, eða hversu marga fanga hún hefur fengið lausa úr haldi.
Kardashian West hefur fengið marga fanga lausa úr haldi og eiga þeir oft sameiginlegt að hafa fengið harða dóma. Hún leysti 17 fanga úr haldi á 90 dögum fyrr á þessu ári.
Please @GovEvers Read this letter https://t.co/iiYVRlSfLK
— Kim Kardashian West (@KimKardashian) October 3, 2019