Rebekah Vardy, eiginkona knattspyrnumannsins Jamie Vardy, segist hafa fengið líflátshótanir og hótanir gagnvart barninu sem hún ber undir belti eftir að Coleen Rooney, eiginkona knattspyrnumannsins Wayne Rooney, sakaði hana um að leka upplýsingum um einkalíf Rooney-hjónanna til breska blaðsins The Sun fyrr í vikunni.
Fram kemur í viðtali við Vardy í Daily Mail í dag að hún hafi fengið mikið af ófögrum skilaboðum á samfélagsmiðlum eftir að frú Rooney steig fram á miðvikudag og greindi frá því að hún hefði frú Vardy grunaða um að leka sögum um hana til breska slúðurmiðilsins.
„Mér hefur verið sagt að ég ætti að deyja, að börn mín ættu að deyja, að ófætt barn mitt ætti að deyja,“ segir Vardy í samtali við Daily Mail frá Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem hún er nú í fríi, komin sjö mánuði á leið.
„Ég er hörð af mér, en þetta hefur grætt mig. Það er erfitt að útskýra hversu hræðilegt þetta hefur verið,“ segir Vardy, sem hefur neitað því að leka sögum um Rooney-hjónin til The Sun. Hún brást við ásökunum frú Rooney með því að segja að hugsanlega væri einhver búinn að brjóta sér leið inn á Instagram-aðgang hennar.
Þær Coleen og Rebekah hafa rætt saman eftir að málið kom upp, en frú Vardy segir það samtal hafa verið tilgangslaust að reyna að rífast við frú Rooney um málið.
„Það hefði verið eins og að rífast við dúfu. Þú gæti sagt henni að þú hefðir rétt fyrir þér og hún rangt, en hún er samt að fara að skíta í hárið á þér.“