Enska fótboltafrúin Rebekah Vardy lenti á Heathrow-flugvelli á Englandi um helgina í mun verra skapi en þegar hún lagði af stað í frí sitt til Dubai. Í vikunni sakaði önnur fótboltafrú, Coleen Rooney, frú Vardy um að leka sögum um hana í götublaðið The Sun.
Hin ólétta frú Vardy hélt í hönd eiginmanns síns, Jamie Vardy, á flugvellinum. Eins og myndir Daily Mail sýna átti frú Vardy erfitt með að berjast við tárin og reyndi að þurrka tárin og sjúga upp í nefið á göngum Heathrow-flugvallar.
Helgin virðist hafa verið skárri hjá óvinkonu hennar en Coleen Rooney skemmti sér langt fram á nótt með vinkonum sínum í fertugsafmæli fótboltakappans Wes Browns í Manchester.
Síðasta vika hefur reynt á frú Vardy sem greindi frá því fyrir helgi að hún hefði meðal annars fengið líflátshótanir.
Knattspyrnumaðurinn Jamie Vardy er sagður standa með eiginkonu sinni og hefur meðal annars hætt að fylgja Wayne Rooney, eignmanni Coleen Rooney, á Instagram.