Vilhjálmur Bretaprins er sagður áhyggjur hafa af Harry bróður sínum og Meghan, mágkonu sinni, eftir að þau lýstu erfiðleikum í sínu persónulega lífi í heimildarmynd um Afríkuferð þeirra. Heimildarmaður BBC segir að Vilhjálmur vilji bróður sínum allt hið besta.
Vilhjálmur er sagður áhyggjufullur en vonar að það sé í lagi með Harry og Meghan. Heimildarmaðurinn sagði einnig að það liti út fyrir að hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, væru á mjög viðkvæmum stað.
Umrædd heimildarmynd var frumsýnd á sunnudaginn í Bretlandi en myndin fylgdi hjónunum eftir í Afríku fyrir stuttu. Harry og Meghan voru bæði hreinskilin í viðtölum í myndinni og talaði Meghan meðal annars um líðan sína og bresku slúðurblöðin og Harry um samband sitt við Vilhjálm bróður sinn.
Meghan sagði í myndinni að það hefði verið erfitt að aðlagast lífinu í bresku konungsfjölskyldunni.
„Þegar ég fyrst hitti núverandi eiginmann minn voru vinir mínir mjög ánægðir,“ sagði Meghan í myndinni. „En bresku vinir mínir sögðu við mig: „Ég er viss um að hann sé frábær en þú ættir ekki að gera þetta af því að bresku slúðurblöðin munu eyðileggja líf þitt“.“