Benni í skíðaskóm

Benni Hemm Hemm í myndbandinu við lagið Miklubraut.
Benni Hemm Hemm í myndbandinu við lagið Miklubraut. Stilla úr myndbandi

Benedikt Hermann Hermannsson, betur þekktur undir listamannsnafni sínu Benni Hemm Hemm, heldur tónleika á Hressingarskálanum í kvöld kl. 21 með glænýrri hljómsveit sem skipuð er þekktum hljóðfæraleikurum. „Ég hóaði saman í nýja hljómsveit að mestu leyti, einhverjir hafa verið áður í hljómsveitinni minni,“ segir Benni og nefnir m.a. Ingibjörgu Elsu Turchi bassaleikara, Hróðmar Sigurðsson gítarleikara, Ívar Pétur Kjartansson trommara, Tuma Árnason saxófónleikara, gítarleikarann Pál Ívan frá Eiðum, Kristínu Sigurðardóttur sem leikur á kornett og Kára Hólmar Ragnarsson sem leikur á básúnu og hljómborð.
Hljómsveitin er býsna fjölmenn og Benni er spurður að því hvers vegna svo sé, hvort lögin hans krefjist þess að vera flutt á mörg hljóðfæri. „Það er mjög góð spurning. Þetta endar einhvern veginn alltaf á því að það eru komnir rosalega margir á svæðið,“ svarar hann. Benni hefur oftast komið fram með fjölmennum hljómsveitum en þegar hann var að fylgja eftir plötunni Skordýr varð undantekning á því, hann var þá með fámennari hljómsveit, meira í ætt við dæmigerða rokkhljómsveit.

Stílíseraður af Guðmundi Jör


„Miklabraut“, lag af næstu plötu Benna sem kemur út á upp úr áramótum, hefur verið býsna mikið leikið í útvarpi upp á síðkastið, enda bæði grípandi og hressandi. Myndband við lagið hefur líka verið gefið út og sést Benni þar á gangi um bílakirkjugarð og ruslahaug. Benni er sérkennilega til fara í myndbandinu, klæddur hvítum fötum með hálsklút og hatt og í hvítum og svörtum skíðaskóm. Hvað á það eiginlega að fyrirstilla? „Ég bað hann Guðmund Jörundsson, mág minn og fatahönnuð, um að finna út úr því með mér hvernig ég ætti að vera klæddur. Ég spurði hann hvað ég gæti farið í þannig að ég væri sambland af útigangsmanni og engli og þá sagði hann að ég þyrfti að vera í skíðaskóm.“
–Já, það liggur í augum uppi! En ertu að fara aftur í eldri tónlistina þína núna hvað stíl varðar?
„Ég upplifi þetta þannig að ég sé að fara inn í einhvern heim sem ég var inni í. Ég var að grúska í gömlu plötunum til að spila eitthvað gamalt á þessum tónleikum á föstudaginn [í kvöld, innsk.blm.] og ég meika bara eiginlega ekki að spila neitt af því,“ segir Benni og hlær.
–Hver er ástæðan fyrir því?
„Ég þarf eiginlega að finna eitthvert svar við því, ég veit það ekki, ég get ómögulega gert mig spenntan fyrir því að spila eitthvað gamalt dót,“ svarar Benni að bragði.
–Er ekki líka bara hollt fyrir listamann að vilja gera eitthvað nýtt?
„Jú, ég upplifi það alla vega sem eitthvað mjög eðlilegt og hitt sem furðulega iðju, að grafa upp eitthvert gamalt dót.“

Aftenging

–Arnar Eggert poppdoktor skrifaði um þig pistil í fyrra þar sem hann segir að þú hafi tekið u-beygju árið 2016 með plötunni Skordýrum. Veistu hvað hann á við með því? Er það tónlistarleg u-beygja eða eitthvað annað og meira?
„Ég tók rosalega mikla beygju yfir í að vera að vinna í þessu persónulega og hafði lítinn áhuga á tengingu við aðra, einhvern veginn. Svo gaf ég út aðra plötu síðasta haust, Fall, sem gekk enn lengra í þessu og er bara svona noise ambient plata. Ég lenti grínlaust nokkrum sinnum í því að hitta fólk sem hafði hlustað á hana og þá rann upp fyrir mér að hún væri ekki bara í tölvunni hjá mér, ég hefði gefið hana út. Þetta var það persónulegt og gekk lítið út á að tala við einhverja aðra.“
–Platan sem er væntanleg, er hún kannski alveg á hinum endanum?
„Já, eiginlega. Síðasta vetur fékk ég svona eldingu í höfuðið og byrjaði að gera rosalega mikið af tónlist, fáránlega mikið og var svo kominn með alveg haug af dóti, kannski 80 lög og var að spá í hvað ég ætti eiginlega að gera við þau. Ég var í smá vandræðum með það og var að spyrja fólk að því hvað ég ætti að gera og fékk einhvern smávinkil frá fólki sem sá þetta skýrar en ég, að það væri einhver Benna Hemm Hemm-plata í þessu, sem mér fannst fjarstæðukennt. Ég áttaði mig svo á því að þessi týpa í skíðaskónum væri að banka upp á.“


Kvöl og pína


Benni segist alltaf hafa forðast á öllu útgefnu efni að hann sé sýnilegur. „Þegar ég hef farið í myndatökur fyrir viðtöl eða annað hefur það verið algjör kvöl og pína og allt sem ég hef gert til að stuðla að því að ég verði aðeins frægari en ég var í gær hefur alltaf verið mjög neikvætt í mínum huga,“ segir hann. Týpan í skíðaskónum vilji hins vegar tala við fólk frekar en að vera ein inni í herbergi.
Benni hefur verið tónlistarkennari í grunnskóla til fjölda ára og er spurður að því hvort starfið hafi haft áhrif á hann sem tónlistarmann, að kenna börnum og umgangast alla daga. „Það hefur alveg áhrif á mann að hjálpa öðrum við að skapa tónlist. Þegar maður er alltaf að telja öðrum trú um að þeir geti fengið hugmyndir, þurfi bara að nota þessa og hina aðferðina til þess að sækja þær, þá er frekar ólíklegt að maður lendi í vandræðum með það sjálfur. Það er líka bara mjög fínt, hristir upp í öllu kerfinu. Ég sæki alveg í að vera bara einn inni í herbergi að semja lög og pæla ekki í neinu öðru en það er ekki mjög hollt. Kennslan heldur lífi í kerfinu,“ segir hann.


Var ekki í stuði


Benni segist hafa tekið sér hlé frá tónleikahald í nokkur ár og er spurður hvernig standi á því. „Ég hef bara ekki verið í stuði fyrir það, hef almennt verið að forðast það sem tónlistarmaður að tala við fólk, bara eins og ég væri með unglingaveiki einn inni í herbergi í jólaboði,“ svarar hann.
–Kannski er nauðsynlegt að taka sér gott frá frá tónleikahaldi stundum?
„Já, ég fékk alveg nóg af þessum bransa en það er fínt að koma aftur inn í hann á eigin forsendum en ekki gera bara það sem maður heldur að maður eigi að gera.“
Benni segir að hann og hljómsveitin muni spila haug af nýjum lögum í kvöld. Hann hafi reynt að troða gömlum lögum í efnisskrána en þau hafi viljað fá að vera í friði.
En ætlar hann að vera í skíðaskónum? „Nei, ég held ekki … en það er dálítið freistandi.“

Myndband Benna við „Miklubraut“:

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan