Fjölskyldu raunveruleikaþáttastjörnunnar Mama June hefur ekki tekist að koma henni á beinu brautina, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þau eru hrædd um að June muni ekki geta snúið blaðinu við, haldi hún áfram á þessari braut.
Heimildarmaður TMZ segir að erfitt sé fyrir fjölskylduna að ná í hana og stundum heyrist ekkert frá henni í nokkra daga í senn. Mama June seldi húsið sitt fyrr á þessu ári og flutti inn í húsbíl með kærasta sínum, Geno.
Síðan þá hafa þau flakkað á milli hótela og húsbílsins í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Bæði June og Geno hafa glímt við fíkniefnavanda en fyrr á þessu ári voru þau handtekin fyrir vörslu á fíkniefnum. Hún hefur einnig sést spila fjárhættuspil í spilavítum daginn út og inn.
Fregnir TMZ herma að hún sé stöku sinnum í samskiptum við dætur sínar, Pumpkin og Honey Boo Boo, en þau samskipti séu slitrótt. Fjölskyldan keyrir reglulega um og leitar að bílnum hennar til að athuga á hvaða hóteli hún er þá nóttina.
Yngsta dóttir hennar, Honey Boo Boo, býr nú hjá systur sinni sem er með tímabundið forræði yfir henni og fjármunum hennar sem hún hefur fengið í gegnum raunveruleikaþáttagerðina.