Leikarinn Chris Pratt virðist eitthvað hafa misreiknað veðrið hér á Íslandi ef marka má nýjustu færslu hans á Instagram. Þar er kappinn staddur við kvikmyndatökur uppi á Skálafellsjökli í gallabuxum.
Hann tekur það fram að allir aðrir séu í snjóbuxum, hann sjálfur sé hins vegar „algjör hálfviti“ og sé því aðeins klæddur í gallabuxur.
Pratt er á landinu við tökur á myndinni The Tomorrow War en fleiri stórstjörnur á borð við J.K. Simmons fara með hlutverk í myndinni.
Leikstjóri kvikmyndarinnar er Chris McKay, en hann leikstýrði meðal annars The Lego Batman-kvikmyndinni. Myndin sem ber vinnuheitið Ghost Draft á að gerast í framtíðinni þar sem mannkynið er að tapa stríði við geimverur. Til að vinna stríðið finna vísindamenn leið til að sækja hermenn úr fortíðinni.