Bækur - Skáldsaga: Flöktandi gengi, dægurtónlist, líf og dauði

Rýnir segir Stöðu pundsins vera eina af bestu skáldsögum Braga …
Rýnir segir Stöðu pundsins vera eina af bestu skáldsögum Braga Ólafssonar. „Hún er vel stíluð, forvitnileg og heldur betur bráðskemmtileg.“ mbl.is/Eyþór

Bragi Ólafsson er meistari hins óræða tvístígandi hiks í íslenskum bókmenntum. Persónur hans rekur oft aðgerðalitlar gegnum lífið, þær axla ógjarnan ábyrgð á því sem gerist, taka því bara sem gefnu, og tilviljanir í hversdagslífinu geta skipt sköpum um það hvernig fer. Þetta hikandi fólk getur farið í taugarnar á sumum þeim framtakssömu, sem vilja að persónur hafi meira um örlög sín að segja – en ég hef lengi verið aðdáandi þess margbrotna en þó hversdagslega fólks sem Bragi skapar. Og mæðginin Madda og Sigurvin, sem lengst af þessarar sögu eru, eins og segir á bókarkápu, „hálffertug ekkja og unglingur með nýtilkominn tónlistaráhuga“, eru einhverjar skemmtilegustu og um leið brjóstumkennanlegustu persónur sem Bragi hefur skrifað. Og eftir að hafa farið gegnum nokkuð þvælinn inngang, þá bæði rígheldur og hrífur vel spunnin sagan um þau mæðgin.

Sagan gerist að mestu upp úr miðjum áttunda áratug liðinnar aldar og fyrir miðju eru þau mæðgin, í sárum eftir að eiginmaðurinn og faðirinn sem einnig hét Sigurvin en var kallaður Eldri fyrirfór séu ári áður. Sagan hefst er Madda tekur að halda dagbók, hikandi og laumulega, og gegnum hana fáum við innsýn í líf hennar, minningar og hugmyndir. Sögunni lýkur síðan er dagbókin er fullskrifuð. Færslurnar í henni birtast í skáletri en á milli flæðir jafnframt annarskonar og óhikaðri fyrstu persónu frásögn konunnar.

Persónugalleríið er skrautlegt og vel mótað, flestar persónur dregnar skýrum og athyglisverðum dráttum, og velti rýnir fyrir sér hvort sjá mætti þar aukna reynslu höfundarins af því að skapa persónur fyrir leiksvið. Eldi var ráðríkur sósíalisti, blaðamaður á Þjóðviljanum sem nöturleg saga tengd geimfaranum Júrí Gagarín loddi við. En hann var ekki allur þar sem hann var séður. Madda kemst smám saman að ýmsu sem hann hefur haldið leyndu fyrir henni og mögulega skýrir hvers vegna hann tók líf sitt, og hann var ekki sá eini sem nærri henni hefur staðið sem það hefur gert. Við sögu koma líka ólíkir vinir og vinkonur, ástmenn og nágrannar – eins og morðinginn sem selur flugelda í bílskúr við næsta hús, skrautlegir drukknir listamenn og sérkennlegir ættingjar Möddu sem búa á eyju fyrir Vesturlandi. Eldri hafði átt vin á Bretlandi og Madda á í samskiptum við hann og hvetur sá þau mæðgin til að koma í heimsókn og þótt þau hafi ekki mikið handa á milli þá þykir þeim það óneitanlega spennandi hugmynd og taka skref inn í þá óvissu, skref sem eiga eftir að hafa afleiðingar fyrir líf þeirra.

Kjarninn í frásögninni er síðan samskipti mæðginanna. Sigurvin segir ekki margt en sambandið þróast með markvissum hætti og kemur þar við sögu einn megindrifkraftur frásagnarinnar en hann byggist á áhuga persónanna á ólíkri tónlist. Eldri hafði dáð tónlist hins sólbrúna trompetleikara Herb Alperts (sem vinur hans segir að sé einhverskonar „eftirlíking af músík. Fyrir gamalmenni.“). En við upphaf sögu hvetur Madda unglinginn sinn til að panta sér plötur frá útlöndum og tekur hann forvitinn að feta sig inn í heim dægurtónlistar þess tíma. Leiðarminni í sögunni tengist einmitt þessum erlendu pöntunum en það er flöktandi staða pundsins sem titill bókarinar er sóttur í. Og hluti af galdri frásagnarinnar er einmitt fjölþættar vísanir í og umræður um fréttir, dægurmenningu og listir þessa tíma, ekki bara allskonar tónlist heldur líka kvikmyndir og skáldskap, þar sem Dagur Sigurðarson og fleiri koma við sögu.

Seint í sögunni, þegar komið er nær okkur í tíma, spyr Madda sig hvort þau mæðginin hafi lifað spennandi lífi. „Varla í augum sögumanns sem tæki að sér að segja frá ævum okkar. Svara ég. Og þaðan af síður fyrir lesandann sem legði á sig að lesa þann texta.“ (232) En eins og áður hefur gerst í sögunni þá skilur Madda ekki endilega hvað aðrir hugsa, hvað þá lesandi þessara orða. Því Staða pundsins, frásögnin af lífi þeirra Sigurvins, sem henni kann að hafa þótt óspennandi, er ein af bestu skáldsögum Braga. Hún er vel stíluð, forvitnileg og heldur betur bráðskemmtileg.

Einar Falur Ingólfsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér kann að sýnast langt í milli þess sem þú hefur og þess sem þig dreymir um. Að binda trúss sitt við ranga fólkið getur leitt til þess að framfarir stöðvist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér kann að sýnast langt í milli þess sem þú hefur og þess sem þig dreymir um. Að binda trúss sitt við ranga fólkið getur leitt til þess að framfarir stöðvist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka