This is Us-stjarnan Justin Hartley sótti um skilnað frá eiginkonu sinni, leikkonunni Chrishell Stause, í lok nóvember. Nú virðist komið babb í bátinn þar sem hjónin eru ósamála um hvenær þau slitu sambandi sínu.
Hjónin sáust saman þangað til í nóvember og mættu meðal annars saman á Emmy-verðlaunahátíðina í september. Þrátt fyrir það tók Hartley fram í skilnaðarpappírunum að þau hefðu skilið að borði og sæng í sumar.
Stause virðist hafa túlkað samskipti þeirra á annan hátt þar sem að á vef E! kemur í ljós að hún tilgreinir 22. nóvember sem daginn sem þau skildu að borði og sæng eða um fimm mánuðum eftir dagsetningu Hartley.
Það virðist því stefna í harða deilu en þau eru ekki bara ósammála um hvenær hjónabandi þeirra lauk heldur krefst Stause meðlags frá Hartley. This is Us-leikarinn tók það þó skýrt fram að hann vildi hvorki borga Stause meðlag né greiða lögfræðikostnað hennar.
Hjónin trúlofuðu sig árið 2016 eftir nokkurra ára samband og giftu sig rúmlega ári seinna.