Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake hefur beðið eiginkonu sína, leikkonuna Jessicu Biel, og fjölskyldu sína afsökunar á hegðun sinni á skemmtistað fyrir nokkrum vikum. Myndir af Timberlake birtust í fjölmiðlum en þar virtist hann ansi náinn mótleikkonu sinni, Alishu Wainwright.
Í pistli á Instagram skrifar tónlistarmaðurinn að hann reyni að forðast slúðursögur en fjölskyldu sinnar vegna hafi hann ákveðið að tjá sig um atvik sem átti sér stað fyrir nokkrum vikum. Viðurkennir hann að hafa sýnt dómgreindarskort. Hann tekur það þó skýrt fram að ekkert hafi gerst.
„Ég drakk allt of mikið þetta kvöld og ég sé eftir hegðun minni. Ég hefði átt að vita betur. Þetta er ekki fordæmi sem ég vil sýna syni mínum. Ég bið hina frábæru eiginkonu mína og fjölskyldu afsökunar á því að ég hafi sett þau í þessar óþægilegu aðstæður og er staðráðinn í því að vera besti eiginmaður og faðir sem ég get verið. Ég var það ekki þarna.“
Á myndunum sem breska götublaðið The Sun birti fyrst sást tónlistarmaðurinn meðal annars halda í hönd mótleikkonu sinnar auk þess sem Wainwright sást hvíla aðra höndina á læri Timberlake. Heimildarmenn voru fljótir til og sögðu ekkert rómantískt vera í gangi á milli þeirra en myndirnar litu ekki vel út fyrir Íslandsvininn. Höfðu myndirnar greinilega svo mikil áhrif að hann sá ástæðu til þess að gefa út opinbera afsökunarbeiðni.
View this post on InstagramA post shared by Justin Timberlake (@justintimberlake) on Dec 4, 2019 at 5:05pm PST