„Þú lendir bara einni vél í einu“

Ragnheiður við auglýsingu fyrir EFA í Reykjavík á næsta ári. …
Ragnheiður við auglýsingu fyrir EFA í Reykjavík á næsta ári. Sjáumst í Reykjavík stendur þar á ensku. Myndin var tekin í opnunarhófi EFA 2019 í sameiginlegu húsi sendiráða Norðurlandanna í Berlín.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, verkefnisstjóri Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna (EFA) í Reykjavík árið 2020, var ein margra Íslendinga sem sóttu verðlaunahátíðina í Berlín á laugardaginn var, til að fylgjast með framkvæmd þeirra. Ragnheiður hefur verið önnum kafin frá því hún var ráðin um mitt sumar, eins og kom fram í spjalli hennar við blaðamann á hóteli í Berlín nokkrum klukkustundum fyrir afhendingu verðlaunanna.

Ragnheiður starfar ein á Íslandi við undirbúning hátíðarinnar og þegar hún er spurð hvort ekki muni fleiri Íslendingar bætast við svarar hún því til að áætlun geri ráð fyrir að tveir starfsmenn verði ráðnir inn á næsta ári, líklega um mitt ár. „Ég er að vinna þetta mjög mikið með starfsmönnum í Berlín þannig að fyrirkomulagið núna er á þann veg að ég er eini starfsmaðurinn á Íslandi og svo er sex manna stjórn sem hittist hálfsmánaðarlega. Í henni eru fulltrúar frá ríki og borg og Meet in Reykjavík. Ég vinn í mjög nánu samstarfi við stjórnina, sem er mjög aktíf. Þetta er samstarfsverkefni ríkis og borgar og því eru menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg í forsvari fyrir þetta og þurfa að gæta þess að allir hafi jafna aðkomu,“ segir Ragnheiður.

Allt í öllu

– Hvaða tvö störf eru þetta sem verða auglýst á næsta ári?

„Það er annars vegar starf þess sem hefur umsjón með pródúksjóninni, svo ég sletti nú aðeins, og hitt starfið er svipað og ég er að gera svo hægt sé að skipta með sér verkum. Við eigum eftir að sjá hvar vantar upp á þekkingu og hvar þarf fleiri hendur,“ svarar Ragnheiður.

– Þú ert verkefnisstjóri EFA 2020, geturðu sagt mér betur frá því í hverju starfið felst?

„Það felst í því að vera allt í öllu núna í undirbúningnum. Ég byrjaði í júlí og af því þetta er svo umfangsmikið eru ákveðnir póstar sem þarf að tryggja, t.a.m. að leita samstarfs- og styrktaraðila. Þar má nefna samstarfssamninginn sem við vorum að undirrita við Icelandair. Það er frábært að fá fyrirtækið í samstarf við okkur því lykillinn að því að hægt sé að halda hátíðina er að við séum með samgöngurnar í lagi. Svo eru það þættir eins og að tryggja hótel og samgöngur innanlands og meðal annars útvega bíla fyrir hina tilnefndu en Skoda sér um það hér í Berlín,“ segir Ragnheiður. Þá þurfi að finna staði fyrir viðburði aðra en verðlaunahátíðina sjálfa, þar á meðal opnunarhóf verðlaunahátíðarinnar.

Hjónin Edda Arnljótsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson á rauða dreglinum …
Hjónin Edda Arnljótsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson á rauða dreglinum á EFA-hátíðinni á laugardag. Ingvar var tilnefndur sem besti leikarinn fyrir leik sinn í Hvítur, hvítur dagur.

Meira en helgi í desember

„Síðan er það hátíðin sjálf, sem er auðvitað stærsti viðburðurinn. Við höfum hins vegar einsett okkur að tryggja að nýta okkur hátíðina með víðtækari hætti en að þetta snúist einungis um eina helgi í desember. Verkefnið er kostað að hluta af skattfé og bæði ráðherra og borgarstjóri hafa markað þá skýru stefnu að nýta þennan opna glugga og það kastljós sem hátíðin færir á Ísland og íslenska kvikmyndagerð og reyna að halda honum opnum allt árið, halda upp á evrópska kvikmyndaárið 2020 á Íslandi. Menntamálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á kvikmyndalæsi í skólum á öllum skólastigum og EFA er sjálft með ýmislegt sem tengist því, meðal annars Young Audience Award, verkefni þar sem krakkar á grunnskólaaldri horfa á kvikmyndir og velja þá sem þeim þykir best. Síðan eru það háskólaverðlaunin. 24 háskólar í Evrópu, Háskóli Íslands þeirra á meðal, koma saman viku fyrir hátíðina í Hamborg og kjósa um bestu kvikmyndina. Þar er verið að tengja þetta inn í skólana.

Einnig má nefna allar borgarhátíðirnar í Reykjavík, hvort sem það er Vetrarhátíð, Bókmenntahátíð, Menningarnótt, Hönnunarmars, Iceland Airwaves eða kvikmyndahátíðir eins og RIFF og Stockfish, við höfum áhuga á að vera í formlegu samstarfi við þessar hátíðir um að tengja þær við okkar hátíð. Á Airwaves gætum við til dæmis verið með fyrirlestra í ráðstefnuhluta þeirra sem leggja áherslu á kvikmyndatónlist,“ nefnir Ragnheiður.

Sif Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg, Ragnheiður Elín Árnadóttir, verkefnisstjóri …
Sif Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg, Ragnheiður Elín Árnadóttir, verkefnisstjóri EFA í Reykjavík 2020, Hera Hilmarsdóttir leikkona og Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, í lokahófi Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Berlín á laugardaginn var.

„Hjá okkur tengist þetta inn í allt, meðal annars ferðaþjónustuna, og við viljum fá alla til samstarfs. Það hefur verið ótrúlega fróðlegt fyrir mig að sjá hversu mikill áhugi er hjá öllum. Allir vilja vera með og við tökum öllum hugmyndum opnum örmum, ætlum að reyna að sía okkur inn í sem flest. RÚV er samstarfsaðili og ætlar að reyna að vera með áherslu á evrópskar kvikmyndir í sinni dagskrá, svipað og gert hefur verið með Bíóást,“ segir Ragnheiður og að Icelandair muni líka leggja áherslu á evrópska kvikmyndagerð í sínu dagskrárkerfi.

Mikill áhugi á Íslandi

Ragnheiður segir að gert sé ráð fyrir að 6 - 800 manns komi að utan á hátíðina og segist hún telja líklegra að um 800 komi. Þegar litið sé til ráðstefna sem færist milli landa og þeirra sem haldnar hafi verið á Íslandi sé jafnan metþátttaka og ástæðan mikill áhugi á Íslandi. „Það vita allir hér í Berlín að verðlaunin verða veitt á Íslandi á næsta ári og allir segjast ætla að koma,“ segir Ragnheiður.

Allra veðra er von á Íslandi á þessum árstíma en Ragnheiður segist ekki hafa neinar áhyggjur af því. Fólk búist við hinu óvænta á Íslandi og veðrið sé hluti af því. „Við ætlum bara að gera þetta á okkar hátt og gera þetta ógleymanlegt.“

Erilsamt og krefjandi

Ragnheiður segir verkefnin dembast yfir sig í hinu nýja starfi. „Þetta er erilsamara að því leyti og meira krefjandi en ég átti von á en ótrúlega spennandi. Það er svo gaman að geta verið með svona marga bolta á lofti í einu og passa upp á að halda þeim þar. Eins og faðir minn, sem var flugumferðarstjóri, sagði alltaf: Þú lendir bara einni vél í einu. Maður þarf að halda fókus.“

– Ef við komumst skammlaust frá þessari hátíð hljótum við að geta haldið Eurovision, ekki satt?

„Þetta er mjög góð spurning því þetta verkefni er ákveðinn prófsteinn á að halda viðburð af þessari stærðargráðu. Hvernig kemur Harpa út, hvernig sinnum við öllum þessum útsendingum? Þetta er flókin framkvæmd. Ég hef verið að fylgjast með hvernig sviðið er byggt og hvernig öllu er stillt upp, hvernig allt er hannað og er voða fegin að ég þarf ekki að sjá um það,“ segir Ragnheiður kímin. Íslendingar eigi afbragðsfólk og fulltrúar frá Hörpu og RÚV voru staddir í Berlín nú í ár og í Sevilla í fyrra til að fylgjast með undirbúningi og útsendingu verðlaunahátíðarinnar.

„Við eigum mjög hæft fólk sem kann á þetta umhverfi þannig að ég hef engar áhyggjur af því að við náum ekki að gera þetta með glæsibrag. Harpa er auðvitað stórkostlega falleg bygging og miklu stærri salur en þessi sem við erum í hér í Berlín; hann tekur tæplega 900 í sæti en við erum að tala um tólf til fjórtán hundruð í Eldborg. Hátíðin okkar verður fjölmennari og ekki minni að umfangi heldur þvert á móti.“

Íslendingar langt komnir

Ragnheiður segir að íslenskur bragur verði á hátíðinni á næsta ári, líkt og þegar hún hefur verið haldin annars staðar en í Berlín, til dæmis í Sevilla í fyrra þar sem spænsk menning var í hávegum höfð með tilheyrandi flamenkósöng og -dansi. Þá er hátíðin líka mikið og gott tækifæri fyrir gestgjafa að kynna sig og sína kvikmyndagerð og menningu.

Ísland er fyrir löngu komið á kortið hvað það varðar og segir Ragnheiður valið á Reykjavík og Íslandi sem hátíðarstað sýna hversu langt Íslendingar séu komnir í kvikmyndagerð. „Og þegar maður skoðar þessi verðlaun og tilnefningar til þeirra höfum við mjög oft átt þar fulltrúa,“ segir Ragnheiður en í ár var Ingvar E. Sigurðsson meðal tilnefndra í flokki leikara.

EFA-verðlaunin eru afar mikilvæg fyrir evrópska kvikmyndagerð, þau eru uppskeruhátíð evrópskra kvikmyndagerðarmanna, eins og Ragnheiður bendir á. Hún segir evrópskar kvikmyndir ekki fylgja meginstraumnum í eins miklum mæli og þær bandarísku. „Evrópskar myndir eru listrænni og meiri pólitík í þeim þannig að þessi hátíð er dálítið pólitísk og hefur tekið á alls konar málum, meðal annars beitt sér fyrir lausn úkraínsks fanga í Rússlandi. Hún tekur afstöðu, sem mér finnst skemmtilegt,“ segir Ragnheiður að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan