Miklir fagnaðarfundir urðu þegar Dorrit Moussaieff og hvolpurinn Samson hittust í fyrsta skipti í vikunni. Samson er klónaður undan hundinum Sámi, sem var blendingur þýskra og íslenskra fjárhunda og var í eigu forsetahjónanna fyrrverandi um langt skeið.
Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit komu til Washington D.C. fyrir tæpum tveimur vikum en Samson fæddist vestanhafs í lok október og verður þar fram í mars þegar hann flytur til London, þar sem Dorrit er búsett.
Dorrit birti myndskeið af fyrstu kynnum hennar og Samson á Instagram. Undir myndskeiðinu skrifar hún að óvíst sé hvort það sé erfðafræðilega mögulegt að flytja minni en að Samson hafi heilsað henni eins og gömlum vini.
Samson undi sér vel í fangi Dorritar og sleikti andlitið rækilega. Ef vel er að gáð má heyra Ólaf Ragnar vekja athygli á því í bakgrunni.
#Samson's first experience of snow a few minutes after he and Dorrit created each other. Love at first sight! pic.twitter.com/XWCxOKGMQA
— Ólafur Ragnar Grímsson (@ORGrimsson) December 21, 2019