Svo virðist sem Hollywood-stjörnurnar Bill Hader og Rachel Bilson hafi fundið ástina í tæka tíð fyrir jólin. Grínleikarinn Hader og OC-stjarnan Bilson sáust saman á Starbucks-kaffihúsi í Tulsa í Bandaríkjunum að því fram kemur á vef TMZ.
Stjörnurnar voru ekki einar á ferð þar sem fjölskylda Haders var með í för. Leikarinn er frá svæðinu og lítur því út fyrir að Bilson fái að hitta fjölskyldu Haders um jólin.
Bilson var lengi með leikaranum Hayden Christensen og á eina dóttur með honum. Þau hættu saman árið 2017. Hader var hins vegar kvæntur leikstjóranum Maggie Carey og á með henni þrjár dætur. Þau tilkynntu einnig um skilnað sinn fyrir tveimur árum. Hader og Bilson léku saman í mynd Carey árið 2013, The To Do List.