„Ég held að dómnefnd Golden Globe sé til í trúðinn og muni veita [Hildi] Guðnadóttur verðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker,“ segir kvikmyndagagnrýnandi New York Times, Kyle Buchanan.
Hildur er tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna sem veitt verða á sunnudaginn. Verðlaunin eru gjarnan talin gefa góða vísbendingu um það hverjir verði tilnefndir til Óskarsverðlaunanna sem veitt verða níunda febrúar næstkomandi.
Hildur er tilnefnd til verðlaunanna í flokki bestu tónlistar fyrir tónlist sína í Jókernum. Hún er eina konan sem tilnefnd er í sínum flokki en í honum eru einnig Randy Newman sem er tilnefndur fyrir tónlistina í Marriage Story, Thomas Newman sem tilnefndur er fyrir 1917, Daniel Pemberton sem er tilnefndur fyrir Motherless Brooklyn og Alexandre Desplat sem er tilnefndur fyrir Little Women.
Buchanan segir litlar líkur á að Randy Newman hljóti verðlaunin en betri líkur á að gullhnötturinn falli Thomas Newman í skaut þar sem tónlist hans eigi svo stóran þátt í 1917. Þó telur Buchanan að Hildur muni standa uppi sem sigurvegari.
Í raun spáir Buchanan því að Jókerinn muni í heild standa uppi sem sigurvegari á sunnudagskvöldið og aðalleikari myndarinnar, Joaquin Phoenix, muni hreppa Gullpálmann sem besti leikari ársins.
Bandaríska fréttasíðan Entertainment Tonight birtir einnig spá um úrslit Golden Globe-verðlaunanna og segir þar að það séu mestar líkur á að Hildur muni hreppa hnossið þótt erfitt sé að segja fyrir um hver sigri í þessum flokki. Sigri Hildur verður hún fyrsta konan sem vinnur flokk bestu tónlistar upp á eigin spýtur.