Það er ekki bara fjölskylda Harry Bretaprins sem varð fyrir vonbrigðum þegar hertogahjónin af Sussex tilkynntu á miðvikudag að þau ætluðu að draga sig í hlé. Thomas Markle, faðir Meghan hertogaynju, hefur tjáð sig um málið en hann er í engu sambandi við dóttur sína.
„Ég vil einfaldlega segja að ég er vonsvikinn,“ sagði hinn 74 ára gamli Markle við Us Weekly nokkrum klukkutímum eftir að tilkynning barst frá Harry og Meghan á samfélagsmiðlum.
Meghan og faðir hennar eru í litlum samskiptum en mikið fjölmiðlafár skapaðist eftir að hann hætti við að mæta í brúðkaup hennar. Hefur Thomas Markle sagt í fjölmiðlum að hann nái ekki sambandi við dóttur sína.
Í tilkynningu Harry og Meghan kemur fram að þau ætli að draga sig í hlé frá hefðbundnum störfum konungsfjölskyldunnar og eyða meiri tíma í Norður-Ameríku. Ætla þau einnig að verða fjárhagslega sjálfstæð.