Tónskáldið Hildur Guðnadóttir hlaut í gær verðlaun á verðlaunahátíð Samtaka tónskálda og textahöfunda í Los Angeles í gær. Variety greinir frá.
Hildur hlaut verðlaun fyrir bæði tónlist sína í kvikmyndinni Joker og í þáttunum Chernobyl. Á sunnudag vann Hildur til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlist sína í Joker auk þess sem hún vann Emmy-verðlaun í september síðastliðnum fyrir tónlistina í Chernobyl.
Það er því ljóst að sigurför Hildar er alls ekki lokið en á mánudag var hún einnig tilnefnd til BAFTA-verðlauna. Líklegt þykir að Hildur verði tilnefnd til Óskarsverðlauna en tilnefningarnar til þeirra verða opinberaðar á mánudaginn kemur.
Í þakkarræðu sinni á verðlaunahátíðinni í gær þakkaði hún sérstaklega fyrir hlýjar móttökur inn í heim tónskálda og textahöfunda.