Harry og Meghan hertogahjón af Sussex eru ekki fyrsta konungsfólkið sem hugnast ekki að lifa lífinu undir smásjá fjölmiðla og almennings.
Hjónin tilkynntu síðdegis í gær að þau ætluðu að draga sig í hlé frá opinberum störfum konungsfjölskyldunnar og eyða meiri tíma í Norður-Ameríku. Þar að auki ætla þau sér að verða fjárhagslega sjálfstæð.
Í dag bárust svo fréttir af að þessi tilkynning hjónanna hefði komið öðrum meðlimum konungsfjölskyldunnar í opna skjöldu og aðeins stutt yfirlýsing frá hennar hátign í kjölfarið. Með tilliti til sögunnar hefði fjölskyldan átt að vera undirbúin fyrir þessa tilkynningu, enda margt bent til þess að þau myndu taka þetta skref.
Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja eru alls ekki þau fyrstu í nútímasögunni til þess að draga sig í hlé frá konunglegum störfum.
Ubol Ratana Taílandsprinsessa var önnur í erfðaröð taílensku krúnunnar áður en hún ákvað að losa sig við prinsessutitilinn árið 1972 þegar hún giftist Bandaríkjamanninum Peter Jensen. Jensen kynntist hún þegar hún var í skóla í Bandaríkjunum. Þau skildu árið 1998 og fór Ubolratana aftur til heimalandsins og hóf aftur að sinna konunglegum störfum árið 2001.
Hún hefur svo reynt fyrir sér í kvikmyndaheiminum og fór með hlutverk í kvikmyndunum Where The Miracle Happens, My Best Bodyguard og Together.
Ubol Ratana hristi svo aðeins upp í stjórnmálunum í Taílandi í fyrra þegar hún gerði tilraun til að bjóða sig fram sem forsætisráðherra landsins. Yngri bróðir hennar, Maha Vajiralongkorn konungur, kom hins vegar í veg fyrir það.
Þegar Marius Borg Hoiby var tveggja ára kynntist móðir hans, Mette-Marit, nýjum manni. Það var Hákon krónprins Noregs og breyttist líf þeirra mæðgina mikið við það. Hákon krónprins og Mette-Marit giftu sig árið 2001 og ólst Marius litli upp í höllinni eftir það. Hann fór hins vegar til Kaliforníu í Bandaríkjunum í skóla og býr nú í London. Í dag er hann 22 ára og sinnir engum opinberum störfum fyrir norsku krúnuna.
Madeleine prinsessa er yngsta dóttir Karls 16. Gústafs Svíakonungs. Árið 2010 flutti hún til New York í Bandaríkjunum og giftist bandarískum manni. Eftir að hafa búið lengi í London fluttust þau til Flórída í Bandaríkjunum árið 2018. Á síðasta ári ákvað Svíakonungur svo að svipta barnabörn sín titlum sínum og þurfa þau ekki að sinna konunglegum skyldum fyrir krúnuna. Madeleine prinsessa sagði börn sín hafa meira frelsi eftir það og eiga möguleika á einkalífi.
Sayako prinsessa, einkadóttir Akihitos Japanskeisara, giftist alþýðumanni árið 2005 og afsalaði sér þar með titli sínum. Eiginmaður hennar er Yoshiki Kuroda skipulagsfræðingur og hafa þau búið saman síðan. Hún verslar í matinn og fékk sér bílpróf.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2005/11/16/prinsessan_vard_obreytt_husfru/
Mako prinsessa er elsta dóttir Fumihitos prins og Kiko prinsessu og þar með frænka Naruhitos Japanskeisara. Hún trúlofaðist óbreytta alþýðumanninum Kei Komuro árið 2017 og ef þau ákveða að gifta sig mun hún missa titil sinn formlega.
Harry Bretaprins er í raun ekki sá fyrsti í fjölskyldunni til þess að taka þetta skref því langafabróðir hans, Játvarður 8. Bretakonungur, afsalaði sér konungdóminum í hendur yngri bróður sínum, Georg 6., pabba Elísabetar drottningar, árið 1936.
Játvarður 8. vildi giftast Wallis Simpson, sem var þá fráskilin óbreytt húsmóðir frá Bandaríkjunum. Það gerði hann og afsalaði sér kórónunni um leið.