Elísabet Englandsdrottning mun stýra fjölskyldufundi í konungsfjölskyldunni á mánudag þar sem reynt verður að leysa deiluna sem komin er upp eftir að hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, tilkynntu að þau ætluðu að draga sig í hlé frá hefðbundnum störfum konungsfjölskyldunnar og eyða meiri tíma í Norður-Ameríku.
Auk Elísabetar og Harry mun faðir hans, Karl, og bróðir, Vilhjálmur, taka þátt í fundinum á sveitasetri drottningar og Filippusar eiginmanns hennar, Sandringham, í austurhluta Englands. Meghan mun taka þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað en hún er í Kanada.
Meðal þess sem verður rætt á fundinum eru fjármál hjónanna — hversu mikið fé þau munu fá greitt áfram í gegnum Karl og hvort þau haldi konunglegri tign sinni. Eins hvaða auglýsingasamninga þau munu geta gert miðað við stöðu þeirra og fleira, að því er segir í frétt Sunday Times.
Harry, Meghan og sonur þeirra Archie eyddu jólunum í Kanada og Meghan, sem er bandarísk og starfaði sem leikkona áður en hún gekk í hjónaband með Harry, sneri þangað aftur í síðustu viku.
Á fimmtudag gerði drottningin þá kröfu á starfsfólk hjá konungsfjölskyldunni að reyna að finna nothæfa lausn á vandanum með það markmið að koma til móts við kröfur þeirra um meira frelsi. Nokkrir kanadískir fjölmiðlar hafa greint frá því að Meghan dvelji í Vancouver þar sem fjölskyldan eyddi jólunum og er þar með syni sínum Archie sem varð eftir ásamt barnfóstru á meðan foreldrarnir fóru til Bretlands að nýju og vörpuðu sprengju sem nefnd er „Megxit“ í breskum fjölmiðlum.
Harry og Meghan hafa sagt að þau ætli áfram að styðja drottninguna af heilum hug. „Við ætlum að draga okkur í hlé sem „háttsettir“ ættingjar konungsfjölskyldunnar og viljum verða fjárhagslega sjálfstæð. Á sama tíma styðjum við að fullu við bakið á hennar hátign, drottningunni,“ sögðu þau í yfirlýsingunni. Þar kemur einnig fram að þau hyggjast verja tíma sínum jafnt milli Bretlands og Norður-Ameríku, líklega Kanada. Þau ætla að halda heimili áfram í Windsor-kastala þegar þau eru í Bretlandi.
Í tilkynningu frá konungshöllinni sem kom í kjölfarið segir að ákvörðun hertogahjónanna sé sýndur skilningur en skilji eftir sig flókin úrlausnarefni sem taka muni tíma að vinna úr.
David McClure, sem er sérfræðingur í fjármálum konungsfjölskyldunnar, segir að það sé eitruð blanda að ætla sér að vera bæði hluti af konungsfjölskyldunni sem og sjálfstæðir einstaklingar. Hann segir að slíkt kunni ekki góðri lukku að stýra og sagan sýni að það hafi einfaldlega ekki gengið upp.
„Hvernig getur þú verið hálfur inni og hálfur úti? Helming vikunnar sinnt opinberum skyldum og hinn helminginn vinnur þú þér inn eigin tekjur í sjónvarpi, með fyrirlestrum, bókum?“ segir hann í viðtali við Press Association.
Harry hefur átt erfitt með að fóta sig innan konungsfjölskyldunnar og í fyrra greindi hann frá því að þeir bræður, Vilhjálmur og hann, væru að vaxa frá hvor öðrum. Harry hefur ekki heldur farið leynt með andlega líðan sína og hann og Meghan viðurkenndu í fyrra að þeim liði ekki vel í kastljósinu sem fylgdi í kjölfar brúðkaups þeirra í Windsor-kastala í maí 2018 og fæðingu Archie ári síðar.
Eins hafi fréttaflutningur, sem oft á tíðum er neikvæður, farið illa í þau ekki síst sá sem Harry segir að sé litaður af rasisma, vegna uppruna Meghan.
Vilhjálmur prins er miður sín yfir stöðunni og segir að konungsfjölskyldan sé ekki lengur saman í liði. Hann hafi átt erfitt með það í hvaða átt samband þeirra bræðra hafi þróast og að hann vonist til þess að bræðraböndin eigi eftir að styrkjast að nýju. „Ég hef haldið utan um bróður minn allt mitt líf og nú get ég það ekki lengur. Við stöndum ekki lengur saman,“ er haft eftir vini hans í breskum fjölmiðlum í dag.